Jólabærinn Hafnarfjörður er á leiðinni í jólafötin þessa dagana og hefur unnið að verkefninu síðustu daga og mun halda því áfram fram að jólum. Ákveðið var að setja jólaljósin snemma upp í ár í ljósi alls og nú þegar hafa jólaljós verið sett upp á nokkrum fjölförnum stöðum í miðbænum með það fyrir augum að gleðja augað og andann og lýsa upp skammdegið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ.
Heilsubærinn Hafnarfjörður hefur lagt ríka áherslu á það þetta árið að leggja upp hugmyndir að heilsueflingu og hreyfingu fyrir íbúa og vini Hafnarfjarðar. Umferð gangandi, hlaupandi og hjólandi vegfarenda hefur verið mikil víðsvegar um Fjörðinn og við helstu náttúruperlur Hafnfirðinga síðustu vikur og mánuði. Það er því afar ánægjulegt að geta glatt gesti og gangandi með fallegum jólaljósum nú þegar fyrstu dagar nóvembermánaðar nálgast. Hafnfirðingar eru hvattir til að taka þátt í því að fullklæða jólabæinn Hafnarfjörð með því að setja jólaljósin upp snemma í ár.
Mynd/Hafnarfjarðarbæ