Tíu ár eru síðan hafnfirska söngkonan Jóhanna Guðrún Jónsdóttir tryggði Íslendingum 2. sætið í lokakeppni Eurovision í Moskvu, þá aðeins 18 ára. 2. sætið er besti árangur þjóðarinnar í þessari stóru og fjölþjóðlegu keppni hingað til. Það vita ekki allir að þessi afar reynslumikla og stórkostlega söngkona er mikill töffari. Við spurðum hana hvort hún væri til í að klæðast n.k. Hatara-búningi fyrir myndatöku í blaðið. Hún var meira en til í það, komin 34 vikur á leið, og hún fékk einnig eindregna hvatningu eiginmannsins, Davíðs Sigurgeirssonar, til þess. Við erum henni afar þakklát fyrir það og úr varð samvinnuverkefni með fyrsta flokks fagfólki.

Mynd/www.olimar.is.

Mynd/www.olimar.is.

Hugmyndina fengu Heiðrún Björk Jóhannsdóttir hjá Ísafold Design og Olga Björt Þórðardóttir, útgefandi Fjarðarpóstsins, sl. fimmtudag og eftir að Jóhanna Guðrún gaf jákvætt svar var farið á fullt að úthugsa og útbúa viðeigandi búning. Undirbúningur og myndataka fóru svo fram í Íshúsi Hafnarfjarðar þar sem Heiðrún Björk hannaði búninginn endanlega á staðnum, í samráði við Jóhönnu Guðrúnu sjálfa. Ólafur Már Svavarsson, hjá olimar.is í Íshúsinu, tók svakalega fallegar myndir í gömlum frystiklefa. Hinn afar reyndi förðunarmeistari Elín Reynisdóttir (#makeupbyelinreynis) sá um förðun og Rakel María Hjaltadóttir sá um að gera hárið dásamlegt í anda myndatökunnar.

Mynd/www.olimar.is.

„Ég tek mig ekki eins alvarlega sem listamann“

Við spurðum Jóhönnu við þetta tækifæri hvað er minnistæðast frá þessu Eurovision tímabili fyrir 10 árum og hún segir það hafa verið ógleymanlega upplifun að standa á þessu risastóra sviði í Moskvu fyrir framan 75 þúsund manns. Og að allt ævintýrið hafi í raun verið magnað frá a til –ö. Aðspurð um breytingu á viðhorfum sem listamaður á 10 árum segist Jóhanna vera opnari fyrir fleiri hlutum en áður. „Ég tek mig ekki eins alvarlega sem listamann.“ Um framlag Íslands í ár, hljómsveitina Hatara, segir Jóhanna að henni finnist teymið hrikalega flott. „Ég held að við eigum mikla möguleika í ár. Hins vegar þá er þessi keppni alveg rosalega óútreiknanleg. En við getum alltaf verið stolt af töff og fagmannlegu atriði hvernig sem fer.“ Hún viðurkennir að finnast erfitt að velja eitthvað eitt uppáhalds Eurovisionlag. „Ég skipti um skoðun reglulega! En það sem kemur upp í kollinn á mér núna er lagið „Undo“ með Sönnu Nielsen frá 2014. Geggjað lag og súper flutningur.“

Jóhanna Guðrún og Davíð eiga von á syni 27. júní, en hún segir að hann muni mjög líklega fæðast aðeins fyrr. Fyrir eiga þau dótturina Margréti Lilju, þriggja ára, sem bíður spennt eftir að verða stóra systir. Við hjá Fjarðarpóstinum óskum þeim öllum velfarnaðar.

Mynd/www.olimar.is.

Mynd/www.olimar.is.

Hér eru svo myndir frá ferlinu í Íshúsinu í gær, mánudag. Myndir/Olga Björt. 

Efsti hluti búningsins.

Heiðrún straujar efnið sem var yfir bringunni og hluta baksins.

Elín og Rakel María byrjaðar á meistaraverki sínu í aðstöðu Ólafs Más.

Staðan tekin. Krullur og liðir eru alveg málið.

Augnhárin gerð svaka fín.

Kúlan fékk smá förðun líka.

Ólafur Már stillir upp í gömlum frystiklefa í Íshúsinu.

Ýmis handtök við gerð búningsins í aðstöðu Heiðrúnar.

Ólar settar á upphandleggina.

Já já, heftað saman og allt.

Sumar keðjur voru sterkari en aðrar.

Komnar í frystiklefann. Síðustu handtökin.

Og myndataka hafin.

Teymið sem lét hugmyndina rætast. Ólafur Már Svavarsson, Olga Björt Þórðardóttir, Elín Reynisdóttir, Jóhanna Guðrún Jónsdóttir, Heiðrún Björk Jóhannsdóttir og Rakel María Hjaltadóttir.