Þórdís Eva Steinsdóttir, frjálsíþróttakona úr FH, var kjörin íþróttakona Hafnarfjarðar á Íþróttahátíð Hafnarfjarðar sem fram fór 27. desember. Hún stefnir á mörg landsliðsverkefni á næstu árum og segir mikilvægt að trúa á sig og treysta þjálfaranum. 

Þórdís Eva, ásamt Antoni Sveini McKee, íþróttakarli Hafnarfjarðar og Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra Hafnarfjarðar. Mynd/OBÞ

Eftir gott keppnisár þá segir Þórdís það hafa verið mikinn heiður að fá að verða fyrir valinu sem íþróttakonar Hafnarfjarðar. „Það hvetur mig mikið áfram á komandi á ári.“ Spurð um markmið fyrir árið 2020 og mögulegar breytingar á döfinni segir Þórdís Eva að markmið hennar verði bætingar í sínum greinum. „Það er spennandi að sjá hvort ég mun ná mínum markmiðum þar sem ég er komin með nýjan þjálfara. Ragnheiður Ólafsdóttir hætti í fyrra og Trausti Stefánsson tók við.“

Systkinin hvetja hvort annað áfram

Þrátt fyrir ungan aldur er Þórdís búin að vera í fremstu röð töluvert lengi, m.a. Íslandsmeistari í 800m hlaupi 2013, aðeins 13 ára gömul. „Ferillinn minn hefur ekki alltaf verið einn samfelldur tröppugangur upp á við. Ég meiddist í fætinum veturinn 2017 og var í smá tíma að koma mér á sama stað en gengur samt sem áður vel í dag. Mér finnst raunhæft að geta stefnt á mörg landsliðsverkefni á næstu árum,“ segir Þórdís bjartsýn. Frjálsíþróttamaðurinn Hinrik Snær, tvíburabróðir Þórdísar, er einnig í fremstu röð. Spurð um hvort þeirra samband í tengslum við sportið segir Þórdís mjög gott sé að hafa Hinrik með sér á æfingum. „Það er alls ekki neinn systkinarígur heldur frekar bara samkeppni og erum við dugleg að hvetja hvort annað áfram.“

Frjálsíþróttahúsið breytti miklu

Aðstaðan hjá FH hefur heldur betur breyst á undanförnum árum. Hverju breytti það og hversu mikilvægt er að hafa góðar fyrirmyndir? „Það að hafa frjálsíþróttahús er mjög gott. Við vorum hér áður fyrr að keyra inn í Laugardal eða æfa í handboltasalnum í Krikanum. Við getum nánast allt eftir að aðstaðan breyttist. Það er gott að hafa mikilvægar fyrirmyndir til að líta upp til og einnig mikil hvatning.“ Að lokum vill Þórdís koma því á framfæri til þeirra sem sjá hana sem fyrirmynd: „Hafa trú því sem maður gerir og treysta þjálfaranum. Svo borgar sig alltaf að vera jákvæð á æfingum því annars gengur ekki mikið upp.“

Myndir/OBÞ