Kristófer Lerokomos-Svansson er ungur listamaður sem fæddist á Íslandi en bjó lengst af á Vancouver eyju í Kanada. Hann hefur búið í Hafnarfirði síðastliðin þrjú ár og semur tónlist og myndbönd undir listamannsnafninu Nú Noia. Hafnfirðingur hitti Kristófer í Íshúsi Hafnarfjarðar.  

Kristófer segir það hafa veitt sér víðtæka sýn á menningu og margvísleg áhrif hennar að hafa búið á mörgum stöðum. „Áhugi minn á kvikmyndum og ljósmyndun kviknaði í kringum 2012, þegar ég tók upp á síma fyrir eldri bróður minn og vini hans í brettagarði. Þess vegna er myndbandastíllinn minn mjög innblásinn af BMX, hjólabrettum og brettamenningu.“ Smám saman þróaði hann tökurnar í að vinna þær (og ljósmyndir) í fartölvu móður sinnar. Það leiddi til þess að hann keypti fyrstu myndavélina sína árið 2016. „Um svipað leyti lærði ég grafíska hönnun og hvernig ég nota Photoshop til að búa til lógó, cover art, klippimyndir og fleira.“

Ein af myndum Kristófers.

Verk á YouTube rás með yfir milljón áskrifendur

Við myndbandavinnsluna uppgötvaði svo Kristófer ást sína á tónlist og hvernig lög getur gert myndbönd mun áhrifameiri. „Í lok árs 2018 byrjaði ég að skapa eigin tónlist og seldi fyrsta ´instrumental´ sem ég bjó til í gegnum YouTube. Verk mín hafa verið notuð víða um heim, s.s. í Japan, Svíþjóð og Póllandi. Nýverið var tónlistin mín notuð á YouTube rás með yfir milljón áskrifendur,“ segir Kristófer og bætir við að allt sem hann búi til hafi einstakan abstrakt stíl og hann reyni alltaf að vera fara sína eigin leiðir og gera hluti sem fólk hefur ekki gert áður. „Ég er mjög sjónrænn, innblásinn af stjörnufræði, þess vegna er mikið af aðaláherslunum í myndunum og myndböndunum mínum andstæður ljóss og myrkurs.“ 

Listamaðurinn Kristófer. Mynd í eigu hans.

Langar að þróa eigið vörumerki

Kristófer segir að þrátt fyrir allt sé hann nýgræðingur í að búa til tónlist og sé enn að finna sinn stíl, en hann villi flokka tónlistina sína sem blöndu af rafrænu og hiphop. „Mestu áhrifavaldar mínir eru Clams Casino, Björk, Flume og Slauson Malone. Allir þessir listamenn eru að mínu mati mjög á undan sinni samtíð. Ég legg mesta áherslu á tónlist um þessar mundir og vonandi mun ég, í lok árs 2020, gefa út mína fyrstu plötu, undir nafninu listamannsnafninu mínu Nú Noia. Ég vona líka að mér auðnist að starfa meira með öðrum listamönnum í framtíðinni og jafnvel þróa mitt eigið vörumerki fyrir fatnað og götufatahönnun,“ segir Kristófer að lokum. 

Hægt er að finna Kristófer á flestum veitum með því að leita undir nafninu Nú Noia:

https://www.youtube.com/nunoia

https://www.instagram.com/nununoia/

Spotify:

Forsíðumynd/OBÞ