Fjölskyldufyrirtæki sem rekin eru heiðarlega áratugum saman verða æ sjaldgæfari en jafnframt afar mikilvæg í öllum sveitarfélögum. 5. desember 1959 stofnaði Hallgrímur Steingrímsson fiskbúð að Reykjavíkurvegi 3, við Kirkjuveg. Faðir hans, sem var kaupmaður, átti húsið og á lóðinni var góð aðstaða baka til. Hallgrímur hafði verið vélstjóri á ýmsum bátum, ásamt því að gera út bát og vera með fiskverkun. Hann langaði að verða sjálfs síns herra og sá að hann hafði til þess aðstöðu og ákvað að stofna fiskbúð, þrátt fyrir að fyrir væru sex fiskbúðir í Hafnarfirði. Í dag er þessi fiskbúð rekin við Trönuhraun 9, af sömu ættinni frá upphafi. Við kíktum í heimsókn á þessum merku tímamótum. 

Hallgrímur Steingrímsson við afgreiðsluborðið. Mynd aðsend.
Fiskbúðin þar sem hún stóð fyrst, við Reykjavíkurveg 3 (sam við Kirkjuveg). Mynd aðsend.
Horft niður Kirkjuveg. Fiskbúðin var vinstra megin. Mynd í eigu fiskbúðarinnar.
Einarsreitur, rétt við Smyrlahraunið, þar sem breiddur var út saltfiskur og þurrkaður. Mynd í eigu fiskbúðarinnar.

Hallgrímur byggði húsnæðið og stofnaði Fiskbúð Hadda. Árið 1964 kom eiginkona hans, Ágústa Hannesdóttir frá Núpstað, inn í reksturinn. „Það var svo um jólin 1985 sem þau hjón komu að máli við mig, systurson Ágústu, og báðu mig um að taka við fiskbúðinni í eitt ár, þar sem Hallgrímur þurfti að fara í hjartaaðgerð til Englands. Þá var ég búinn að vera á sjó. Árið sem ég leysti af er ekki enn liðið, 34 árum síðan,“ segir Ágúst Tómasson og hlær. Hjónin Ágúst og Elísabet Þórdís Guðmundsdóttir (Dísa) tóku svo alveg við rekstrinum í janúar 1986, en Hallgrímur hélt áfram að koma við og við í búðina til að finna ilminn. Fiskbúðin flutti svo á Trönuhraun í september 2005.

Feðgarnir Tómas Ágústsson og Ágúst Tómasson í versluninni við Trönuhraun. Mynd/OBÞ

Átti hlutabréf nr. 1 í Fiskmarkaði Hafnarfjarðar

Á þeim tíma sem Ágúst tók við búðinni var ekki alltaf gott aðgengi að nýjum fiski. Hann þurfti að hafa mikið fyrir því og ók sjálfur til Þorlákshafnar og stundum alla leið vestur á Snæfellsnes, tvisvar á dag. Hann keypti fisk beint af útgerðunum. Það varð því mikil breyting á þegar Fiskmarkaður Hafnarfjarðar var stofnaður 1986, fyrstur á landinu, og létti mörgum sporin. Ágúst átti einmitt hlutabréf númer 1 í því félagi. Eins og lesendur eflaust muna, þá brann húsnæði fiskmarkaðarins við Suðurbakka í sumar. „Núna er fiskurinn keyptur í gegnum netið, kemur víða frá, og kemur í hús um sex til hálf sjö á morgnana. Við kaupum mest frá Snæfellsnesi og Skagaströnd. Neysluvenjur hafa líka breyst mikið á þessum 60 árum. Á fyrstu árunum var salan mest í þverskorinni ýsu, ýsuflökum flöttum saltfiski og stöku sinnum lúðu. Núna er mesta salan í alls konar tilbúnum fiskréttum og humarsúpu,“ rifjar Ágúst upp. 

Úrvalið er mikið og glæsilegt. Mynd/OBÞ
Viðskiptavinir sem kjós gamla góða, einfalda útlitið, verða ekki fyrir vonbrigðum. Mynd/OBÞ
Og að sjálfsögðu fiskbollur, plokkari, rúgbrauð, hamsatólg, smjör, kartöflur og allt mögulegt með. Mynd/OBÞ

Börn og barnabörn Ágústar og Dísu hafa öll komið við sögu í rekstri fiskbúðarinnar. Tómas byrjaði að venja komur sínar í búðina 12 ára og árið 2011 kom hann svo inn í reksturinn. Nú hefur 17 ára sonur hans, Ágúst Hjalti, hjálpað til í búðinni með skóla. Þar með hafa fjórar kynslóðir komið að rekstrinum frá því að fiskbúðin var stofnuð. „Við ætlum að fagna tímamótunum á 60 ára afmælisdaginn 5. desember með því að taka vel á móti gestum og gangandi, með kaffi og meðlæti,“ segir Ágúst að lokum. 

Forsíðumynd: Fjórir fulltrúar ættliða sem komið hafa að rekstrinum. Fv. Ágúst Tómasson, Ágústa Hermannsdóttir, Tómas Ágústsson og Ágúst Tómasson