Samtals átta einstaklingar, pör og félagasamtök fengu tilnefningu sem Hafnfirðingur ársins 2019. Tilnefningar fóru fram í gegnum netfangið ritstjorn@hafnfirdingur.is og Facebook síðu Hafnfirðings undanfarnar vikur. Kosning fer nú fram til áramóta hér á vefnum og hver IP tala getur kosið einu sinni. Hafnfirðingur ársins verður afhjúpaður á forsíðu fyrsta tölublaðs Hafnfirðings, 9. janúar 2020.

Þess má geta að Guðmundur Fylkisson hlaut þessa viðurkenningu fyrir árið 2018.

Hér eru tilnefningar, auk umsagna, í starfrófsröð:

Hjónin Antohy Bacigalupo og Ýr Káradóttir, Suðurgötu 9.
„Fyrir einstaka framsýn á lóðinni á Suðurgötu 9 og það sem þau hafa gert á Gúttóreitnum á árinu.“

Bergrún Íris Sævarsdóttir, rithöfundur og teiknari:

„Bergrún Íris er afar stolt af bænum sínum og reynir að koma því að hvar sem hún getur. Hún flutti í fjörðinn er hún fór að búa með manni sínum Andra Ómarssyni fyrir ca 12, 14 árum og ætlar alltaf að búa í Hafnarfirði. 

Árið 2019 var Bergrún Íris fyrst til að hljóta Hvatningarverðlaun Guðrúnar Helgadóttur fyrir handrit að bókinni; Kennarinn sem hvarf. Nú í desember hlaut hún tilnefningu Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki barna og ungmennabóka fyrir bókina; Langelstur að eilífu og einnig hlaut hún tilnefningu til Fjöruverðlaunanna fyrir bókina; Kennarinn sem hvarf. 

Bergrún Íris er afar afkastamikil því fyrir utan þessar tvær bækur sem nefndar eru hér fyrir ofan, eru amk þrjár eða fjórar sem hún myndskreytti fyrir aðra svo sem, Stórhættulega stafrófið og Ró. Einnig myndskreytir hún fjöldann allan af bókum og skrifar árlega fyrir Menntamálastofnun. Þess utan ferðast hún á milli skóla víða um land, þar sem hún kynnir lestrargyðjuna og lestrargleðina fyrir ungum lesendum til að örva lestur þeirra. 

Bergrún Íris er með vinnustofu í Íshúsi Hafnarfjarðar þar sem hún notar lausar stundir til að teikna jólakort fyrir Barnaheill, semja jólasögu til flutnings í Hörpunni með Stórsveit Reykjavíkur, teiknar myndabækur og loftbelgi svo lítið eitt sé nefnt.Bergrún Íris býr ásamt manni sínum og tveimur sonum við Herjólfsgötuna þar sem hún nýtur þess að hafa útsýni yfir Hafnarfjörðinn 

Bergrún varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að semja ljóð fjallkonunnar í Hafnarfirði 17.júní árið 2015 sem hún flutti ásamt 100 öðrum konum og var það stórkostleg stund. Ég held að Hafnfirðingar geti verið afar stoltir af þessari ungu konu sem er orðin sannkallaður Hafnfirðingur.“ 

Björgunsveit Hafnarfjarðar:

„Fyrir að vera alltaf á vaktinni fyrir okkur hin. Ég fann sérstaklega fyrir mikilvægi þessa fólks í óveðrinu sem skall á byrjun desember. Við megum ekki gleyma að styðja Björgunarsveitina þegar hún þarf á okkur að halda. “

Freyja Haraldsdóttir, baráttukona og aktívisti:

„Fyrir baráttu fyrir mannréttindum og mikilvægan áfanga á árinu fyrir fatlaða foreldra.“

Guðmundur Fylkisson, lögreglumaður og fuglavinur:

„Guðmundur er alltaf boðinn og búinn til að hjálpa fuglum á læknum. Hann fylgist með þeim árið um kring og lætur vita ef eitthvað þarf að gera þeim til aðstoðar, kaupir handa þeim kjarngott fóður og færir þeim þegar þörf er á. 

Hópurinn Project Henrý – fuglalíf í Hafnarfirði á Facebook ber vitni um þetta en þar má sjá hversu annt honum er um fuglana og hvernig hann nær að smita það út frá sér. Hann er fyrstur til að bjóða fram hjálparhönd þegar fugl er í neyð og reyna að koma honum til bjargar. Vængbrotnir fuglar, hungraðir fuglar, fuglar sem hafa frosið við klakann og fuglar sem hafa orðið undir í baráttunni eiga sér góðan vin í Guðmundi.“

Linda Hilmarsdóttir og Jón Þórðarson í HRESS:
„Linda og Jón eiga skilið að vera valin Hafnfirðingar ársins. Þau hafa sýnt það með Hressleikunum ár hvert með því að hjálpa Hafnfirðingum sem glíma við veikindi og erfiða tíma. Hressleikadagurinn er dagur sem að allir safnast saman og vinna að því að hjálpa.“

Páll Eyjólfsson, rekstrarstjóri Bæjarbíós:
„Páll fæ tilnefningu fyrir að vera vítamínssprauta í menningarlíf Hafnarfjarðar með rekstri Bæjarbíós. Þar fara fram tónleikar, fundir og aðrir viðburðir fjölmarga daga í viku. Einstök stemmning í þessu skemmtilega friðaða húsi í miðbænum. Palli er einnig ábyrgur fyrir bæjarhátíðinni Hjarta Hafnarfjarðar, sem er orðin að vikulangri hátíð í júlí ár hvert. Bæjarhátíðin er vegleg hátíð þökk sé Palla, Hafnarfjarðarbæ og íbúum bæjarins.“

Ævar Olsen, veitingamaður á RIF í Firði.

„Mig langar að tilnefna Ævar Olsen sem var að opna Rif restaurant á 2. hæð í Firði. Það er frábært að það sé komin veitingastaður með svona fjölbreytt úrval af góðummat á viðráðanlegu verði. Hann og staðurinn hefur klárlega lífgað upp á fallega bæinn okkar.“

„Ég vil tilefna Ævar Olsen og Rif restaurant fyrir Hafnfirðing og veitingarstað ársins. Lengi hefur vantað svona flottan og góðan stað í Hafnarfjörðinn og það er ekki bara maturinn sem maður nýtur þegar maður fer þangað heldur mótttakan. Hann Ævar fer alltaf og heilsar og tékkar á öllum þótt það sé brjálað að gera sem er mest alla daga. Hann gefur sér alltaf tíma til að láta fólki líða eins og gestum frekar en kúnnum.“

„Ég vil tilnefna Ævar olsen eiganda Rif restaurant. Frábær manneskja í alla staði og búinn að gera magnaða hluti á þeim 6 mánuðum sem staðurinn er búin að vera opinn.“

Ég tilnefni hér með Ævar Olsen hjá Rif restaurant sem Hafnfirðing ársins 2019. Með tilkomu Rif restaurant hefur mjög svo skemmtileg matarmenning í Hafnarfirði verið auðguð. Á Rif geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi, þjónustan er góð og mjög gott verð. Ævar er nánast alltaf á svæðinu og gefur sér tíma til að spjalla við GESTI.“

Hér er fer kosningin fram.