Ég skrifaði grein í Hafnfirðing 25. ágúst sl. þar sem ég gagnrýndi meirihluta sjálfstæðismanna og framsóknar fyrir nýtt deiliskipulag á Gjótur reitnum á hraun vestur svæðinu þar sem gert er ráð fyrir gríðarlegri aukningu á byggingamagni. Jafnframt vakti ég athygli á því að núverandi meirihluti gengi fremur erinda lóðareigenda og verktaka heldur en bæjarbúa. Sem dæmi nefndi ég skipulag á reitnum  Fornubúðir 5 og gjörningin varðandi kaup bæjarins á parkethúsinu í Kaplakrika. Ég hefði vissulega getað nefnt önnur dæmi.

Fulltrúar meirihlutans hafa ekki svarað þessu enda virðast þeir eiga erfitt með það. Hins vegar bregður nú svo við að Viðar Halldórsson sendi mér tóninn í Hafnfirðingi 8. sept sl. og notar titilinn formaður Fimleikafélags Hafnarfjarðar. Þar fór nú í verra þar sem ég  hef sterkar taugar til FH enda keppti ég allan minn afreksferil fyrir félagið.  Viðar sparar ekki stóru orðin og sakar mig m.a. um að bera þjófnað upp á FH svo og að ég væni Jón Rúnar (JR)  bróðir hans um að vera einhvern ódáðamann. Þetta er fráleitt og  verður Viðar að eiga þetta orðagjálfur við sjálfan sig en ekkert af þessu er að finna í grein minni. Það var ekki meining mín að koma höggi á JR eða FH í fyrrnefndri grein minni. Ég veit vel að þeir bræður hafa unnið gott starf fyrir FH og metnaði JR mest að þakka að félagið náði mörgum Íslandsmeistaratitlum í knattspyrnu karla. Ég setti þessa setningu inn fyrst og fremst til að skýra slök vinnubrögð meirihlutans í skipulagsmálun. En gott og vel, Viðari er annt um sannleikann og þá er rétt að fara aðeins nánar ofan í þessar ,,grafalvarlegu ásakanir“ sem hann segir mig fara með.

Skipulag á lóð Fornubúða 5

Í kerskni minni nefndi ég að athafnamaðurinn, sem nú er upplýst að sé Jón Rúnar,  hafi ekki launað greiðann (fyrirgreiðslu meirihlutans) betur en svo að gera kröfu á hendur bæjarins um bótagreiðslu vegna meints seinagangs. JR hafði í upphafi farið fram á verulega aukið byggingarmagn á lóð Fornubúða 5. Breytingar á skipulagi lóðarinnar höfðu í för með sér töluverða vinnu fyrir skipulagsyfirvöld og fram komu fjölmargar athugasemdir frá bæjarbúum, sem meirihlutinn kaus reyndar að taka ekkert mark á. Það tók eðlilega nokkurn tíma að greiða úr þessu en JR náði nánast öllum kröfum sínum í gegn en sem betur fer tókst þó að fá húsin lækkuð frá upphaflegum teikningum. Það kom því meirihlutanum í opna skjöldu að JR skyldi gera kröfu á hendur bæjarins um háar bótagreiðslur (sjá fundargerð bæjarráðs 15.08.2019). Þetta þótti mjög klaufalegt hjá JR enda gat meirihlutinn í bæjarstjórn ekki annað gert  en að hafna henni. JR á hins vegar það sem hann á og hafi hann þakkir fyrir sinn þátt í því að fá Hafrannsóknarstofnun til Hafnarfjarðar.

Skessan í Kaplakrika

Það er enginn einn sannleikur til varðandi byggingu nýs knatthúss og frágang eignaskipta í Kaplakrika. Þetta mál var mjög umdeilt og má þar vísa til umræðna í bæjarstjórn á fjölmörgum fundum undanfarin tvö ár. Upphafið má rekja til gjafagjörnings sem samþykktur var í bæjarstjórn 10. janúar 1989 en þar var gert ráð fyrir því að parkethúsið skyldi verða að fullu í eigu FH frá 1. janúar 2005 og félagið skyldi reka það á sinn kostnað upp frá því. Samningurinn var hins vegar ekki fullnustaður fyrr en í júní 2020. Af hverju ekki – voru meirihlutar hvers tíma kannski í vafa um lögmæti hans? Parket húsið hefur allan tímann verið skráð sem 80% eign í bókum bæjarfélagsins sem jafnframt hefur séð um viðhald hússins frá upphafi. Í lögfræðiáliti sem Haraldur Líndal, fyrrverandi bæjarstjóri, lét gera árið 2017 kemur fram að mjög vafasamt sé að bæjarfélag hafi heimild til að gefa eignir sínar með vísan í sveitarstjórnarlögin. Það að gjafagjörningurinn hafi loks verið fullnustaður í júní sl. segir ekkert til um það hvort hann sé réttur eða rangur. Niðurstaðan var fyrst og fremst pólitísk. Það var ekki einungis lögmæti gjafagjörningsins sem deilt var um. Nefna má að fyrst stóð til að bærinn stæði að framkvæmdunum. Þegar fyrir lá að FH myndi byggja knatthúsið vöknuðu spurningar um fjármögnun og síðan kaup bæjarins á eignum og verðmat þeirra. Þetta eru flókin mál og eðlilegt að um þau séu skiptar skoðanir. Þeir sem þrýstu mest á byggingu knatthússins voru fyrrnefndir bræður. Þeir eru kappsfullir og fylgnir sér. Þeir verða þó að þola umræðuna og að það séu ekki allir sammála þeim. Það er mér hins vegar fagnaðarefni að fá bætta aðstöðu fyrir íþróttafólk í Kaplakrika. Um það getum við verið sammála.

Sigurður Pétur Sigmundsson

Fulltrúi Bæjarlistans í Skipulags- og byggingaráði