Fyrir fimm árum lét ég reyna á nýja hefð; að almenningur fengi að tilnefna Hafnfirðing ársins og með því fá tækifæri til að þakka einstaklingum, pörum, hópum og félögum fyrir framlag til samfélagsins eða fyrir framúrskarandi árangur. Hvað sem hverjum finndist skipta máli hverju sinni.

Ég bað einnig um að rökstuðningur myndi fylgja tilnefningunni, því eðlilega vita ekkert endilega allir hvað allir hafa gert markvert því við margir láta gott af sér leiða án þess að flagga því. Svo fer bara eftir þeim sem tilnefna hversu langur rökstuðningur er og hversu mikið þeira gefa af sér og hafa fallegt að segja um viðkomandi. Það eitt og sér getur verið áskorun því við erum misjöfn og það er hægt að segja eitthvað fallegt í fáum orðum jafnt eins og mörgum.

Hafnfirðingar

Í fimm ár hefur líka verið mjög áhugavert að finna fyrir umræðum og sterkum skoðunum margra Hafnfirðinga á hverjir teljast til Gaflara og Hafnfirðinga og hverjir alls ekki. Ég geri mér grein fyrir því að ýmislegt getur legið þar að baki, s.s. stolt, íhaldssemi, barátta, djúp saga og reynsla margra fyrri kynslóða.

Svo er það annar vinkill. Þessi sem sprottinn er úr jarðvegi sem getur alveg verið húmor og/eða kaldhæðni. Svo sem þegar nýir Hafnfirðingar eru kallaðir AA, sem merkir aðfluttir andskotar. Ég hef t.d. alveg húmor fyrir því eins og held ég flestir aðfluttir Hafnfirðingar.

Stundum getur líka örlað á smáborgaralegum fordómum án þess að fólk átti sig á því. Bara einhver vani. Það veit kannski ekki sjálft hvers vegna það hefur þá skoðun að hinn og þessi sé ekki Hafnfirðingur nema hann uppfylli staðla sem einhver taldi mögulega mikilvæga einhvern tímann. Þá er orðalagið „innfluttur“ gjarnan notað, eins og að um hluti eða dýr sé að ræða. En ég hef samt upplifað að aðfluttir Hafnfirðingar með húmor hlæja líka vinalega með því, sérstaklega ef Gaflarar hafa krækt í maka utan Hafnarfjarðar og viðkomandi flutt í fjörðinn fagra. Einnig bólar á orðunum „innfæddur“ og „hreinræktaður“, til einhvers áhersluauka.

Gaflarar

Gamla verkamannaskýlið við höfnina, þar sem m.a. Gaflarar héldu til. Mynd/Byggðasafn Hafnarfjarðar.


Gaflari er líklega það hafnfirskasta af þessu öllu. Ég hef fjallað um það áður hér og á Vísindavef HÍ segir: „Gaflari er bundið Hafnarfirði og er samheiti við Hafnfirðingur. Orðið má rekja aftur til kreppuáranna á milli stríða þegar litla vinnu var að fá og menn í Hafnarfirði biðu við gafla tveggja húsa eftir því hvort einhvern eða einhverja þyrfti til vinnu þann daginn. Orðið gafl merkir ‘endaveggur húss’“. Rótgrónir Gaflarar hafa sagt að samkvæmt ströngustu skilgreiningu er Gaflarar þeir sem fæddust í bænum, annað hvort í heimahúsi eða á Sólvangi eftir að fæðingardeildin þar var tekin í notkun 1953. Henni var lokað 1976 og því eru síðustu börnin sem fæddust þar óðum að nálgast fimmtugt.

Yngri kynslóð Gaflara hefur því víkkað skilgreininguna út þannig að börn Gaflara, sem fæðast í Reykjavík eða á öðrum stað (eftir að fæðingardeild Sólvags hætti) en eiga klárlega lögheimili í Hafnarfirði, teljist líka Gaflarar. Þeir sem eru eldri eru margir ekki sammála þessari skilgreiningu. Hvers vegna ætli það skipti þá svona miklu máli, sér í lagi þegar börn ráða ekki hvar þau fæðast?

Hlutfall „hreinræktaðra og innfæddra“ Gaflara hlýtur því smám saman óumflyjanlega að minnka hratt á allra næstu áratugum. Hvað finnst Göflurum um það? Verður þá enginn almennilegur „stofn“ eftir í bænum sem á að njóta einhverrar meiri virðingar en aðrir?

Erlendir ríkisborgarar og aðrir aðfluttir

Það væri áhugavert að vita hvert hutfall Gaflara er í dag því þetta um 30.000 manna sveitarfélag er bæði orðið stórt í ferkílómetrum og blandað. Erlendum ríkisborgurum á Íslandi hefur fjölgað um rúmlega einn Hafnarfjörð á áratug og í Hafnarfirði eru þeir 12% íbúa. Gætu jafnvel verið orðið fleiri en Gaflararnir áður en langt um líður. Og allir Reykvíkingarnir, Suðurnesjafólkið og Vestmannaeyingarnir sem hafa kolfallið fyrir Hafnarfirði og flutt hingað Maður góður!

Það hafa allir rétt á því að hafa skoðanir á þessu eins og öllu öðru. Við megum meira að segja öll tjá skoðanir okkar en erum misjafnlega góð í að lesa í fólk og aðstæður og hvort skoðanir okkar eru meiðandi eða ekki. Ef við tjáum þær opinberlega þá má líka gagnrýna þær og ræða. Þá eru þær ekki lengur einkamál.

Ég ber virðingu fyrir heitinu Gaflari og finnst það falleg hefð í þeirri merkingu að viðhalda sögu, menningu og láta ekki tíðaranda gleymast. Mín skoðun hins vegar er að hver og einn megi skilgreina sig sjálfur sem Hafnfirðing þegar hann vill. Og jafnvel á sama tíma Reykvíking, Suðurnesjamanneskju og Vestmannaeying. Mér finnst það vera merki um víðsýni, góða aðlögunarhæfni og stolti yfir því að búa í bænum.

Eftirsóknarverður bær

Hafnfirðingar ættu í raun að taka því sem hrósi hversu mikil ásókn er að vera Hafnfirðingur því langflest okkar „aðfluttu andskota“ viljum leggja okkar á vogarskálar með að viðhalda þeirri fallegu menningu sem bærinn er þekktastur fyrir. Hugarfarið skiptir mestu máli. Samheldi í stað sundrungar.

Gleðilega hátið!

Olga Björt Þórðardóttir, eigandi Hafnfirðings og Hafnfirðingur í 13 ár, Njarðvíkingur í 19 ár og fæddist í Reykjavík og bjó þar í samtals 17 ár.

Mynd sem ég tók með drónanum mínum á gamlársdag 2020. Ein af ótal myndum sem ég hef tekið í okkar fallega bæ.