Ástandið í samfélaginu er þungt. Sóttvarnaaðgerðir eru hertar, þeim er aflétt í skrefum, þær eru hertar aftur. Við því þarf að bregðast. Á mörgum vinnustöðum er möguleiki á því að vinna heima. Á mörgum vinnustöðum er möguleiki á því að hólfa starfsemina það mikið niður að hægt er að virða fjarlægðarmörk. Það er erfitt og í mörgum tilfellum ekki hægt í leik- og grunnskólum. Á þessum vinnustöðum þurfa starfsmenn að fara út í myrkrið á morgnanna og takast á við verkefni dagsins með þessum frábæru börnum sem eru í leik- og grunnskólum. Forréttindastarf, að fá tækifæri til að vinna með börnunum og þeim faglegu og flottu starfsmönnum sem eru í leik- og grunnskólum bæjarins. Það er ljóst að fjölmargir starfsmenn eru smeykir við þessar aðstæður, orðnir þreyttir á ástandinu og líður ekki vel með að vera með grímu í vinnunni allan daginn. En þessir starfsmenn mæta og gera sitt besta í þessum íþyngjandi aðstæðum.

Starfsmenn leik- og grunnskóla eru í framvarðasveit í þessum faraldri. Þeir standa vaktina fyrir börnin.

Þegar sóttvarnaaðgerðir eru hertar þá þurfa starfsmenn að umbylta öllu starfinu. Aðlaga það að breyttum aðstæðum. Það gera starfsmenn leik- og grunnskóla á einum degi! Og þetta eru ekki litlar breytingar á skólastarfi, algjör viðsnúningur. Ekki nóg með að starfsumhverfinu er breytt, það þarf að breyta öllu innra starfinu og með það í huga að kennslufræðileg sjónarmið séu höfð að leiðarljósi og einnig vellíðan barnanna. Börnin eru í sama rými, allan daginn. Þau sem eru lengst eru í sama rýminu frá 08:00 á morgnanna til 17:00. Vissulega hægt að fara með börnin út en tilbreytingin er ekki mikil. Starfsmenn hafa því þurft að huga að því að skipuleggja starfið með þeim hætti að það sé fjölbreytt og að börnunum líði vel. Almennt séð hefur það tekist virkilega vel.

Kæru starfsmenn í leik- og grunnskólum. Þið eigið stórt og mikið hrós skilið fyrir ykkar störf. Hrós fyrir sveigjanleika og aðlögunarhæfni, hrós fyrir ykkar faglegu og öflugu störf á þessum krefjandi tímum. Þið eruð svo langbest.

Valdimar Víðisson

Skólastjóri Öldutúnsskóla