Gaflari er bundið Hafnarfirði og er samheiti við Hafnfirðingur. Orðið má rekja aftur til kreppuáranna á milli stríða þegar litla vinnu var að fá og menn í Hafnarfirði biðu við gafla tveggja húsa eftir því hvort einhvern eða einhverja þyrfti til vinnu þann daginn. Orðið gafl merkir ‘endaveggur húss’. (Vísindavefur HÍ)

Hinn vitri sögumaður Jónatan Garðarsson segir aðspurður að samkvæmt ströngustu skilgreiningu séu Gaflarar þeir sem fæddust í bænum, annaðhvort í heimahúsi eða á Sólvangi eftir að fæðingadeildin þar var tekin í notkun. „Björgvin Halldórsson telur þetta vera einu réttu skilgreininguna. Í seinni tíð hefur þetta stundum verið víkkað út þannig að börn Gaflara, sem fæðast í Reykjavík eða á öðrum stað en eiga klárlega lögheimili í Hafnarfirði, teljast líka Gaflarar. Þeir sem eru eldri eru ekki sammála þessari skilgreiningu, en mér finnst þetta algjörlega stemma.“
