Á Íslandi eru starfandi 13 ungmennahús sem eru félagsmiðstöðvar fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára. Ungmennahúsið í Hafnarfirði heitir Hamarinn og er staðsett í gömlu skattstofunni og gengið er inn frá Suðurgötu 14. Tilgangur Hamarsins er að bjóða ungu fólki upp á jákvætt félagslegt umhverfi og vera ungu fólki innan handar hvað varðar þeirra málefni, koma hugmyndum þeirra í framkvæmd, vera staður til að læra á eða komast að því hvað maður vill læra, og bjóða upp á fjölbreytt námskeið. Þá aðstoðar starfsfólk Hamarsins ungt fólk að koma á tengslum við fagaðila eins og sálfræðinga ef þess er óskað.

Í Hamrinum er mjög góð aðstaða fyrir viðburði og er ungt fólk hvatt til að halda þar tónleika, myndlistasýningar, aðrar listasýningar eða að spila Dungeons og Dragons langt fram á kvöld. Hamarinn er staður til að leggja á ráðin með heimsyfirráð, skipuleggja herferðir gegn samfélagsmeinum eða til að loka sig af í „trúnóherberginu“ og íhuga. Í Hamrinum er alltaf kósý stemning og gott að koma og kíkja í pool, horfa á þætti, tefla, grípa í gítar, spila eða bara vera til og spjalla. Allar hugmyndir um hvernig má bæta starfsemi Hamarsins eða bæta við hana er vel þegin.

Ákveðið  hefur verið að sníða starfsemi Hamarsins að ástandinu í þjóðfélaginu vegna Covid-19 og hafa opið alla virka daga frá 10:00 á morgnanna svo ungt fólk geti komið og lært. Í Hamrinum er starfsmaður til taks frá 10:00 á morgnanna og á mánudögum og miðvikudögum er opið til 23:00 og á föstudögum er opið til 19:00. Á þriðjudögum og fimmtudögum er opið til 17:00 en á fimmtudagskvöldum hittast í Hamrinum spunaspilarar og eru allir velkomnir sem hafa áhuga á því. Hamarinn er í virku samastarfi við Rauða krossinn og er með skipulagt félagsstarf fyrir ungt fólk á flótta og ungt fólk af erlendu bergi brotnu. Yfir Hamrinum er starfandi húsfélag ungs fólks og er aðalfundur nú í október þar sem kosið verður í nýja stjórn og er kallað eftir áhugasömu ungu fólki sem vill hafa áhrif á starfsemi Hamarsins og beita sér fyrir hagsmunum ungs fólks í Hafnarfirði.

Í Hamarinn er allt ungt fólk velkomið og eru starfsmenn boðnir og búnir til aðstoðar með hvað sem er sem liggur ungu fólki á hjarta. Tekið skal fram að allir starfsmenn tala ensku. Gildi Hamarsins eru: Jafnrétti, vinátta og vellíðan og er áfengi, fíkniefni, reykingar, munntóbak og vape bannað.

Hlökkum til að sjá ykkur

Margrét Gauja Magnúsdóttir og s tarfsfólk Hamarsins, ungmennahús Hafnarfjarðar