Ragnheiður Edda Hlynsdóttir er nemandi í Lækjarskóla og verður 15 ára í október. Hún hefur teiknað, skrifað og föndrað frá unga aldri og hefur nú stofnað Facebook síðu, Húrrakort, þar sem hún selur handgerð tækifæriskort og tekur einnig við sérpöntunum. Húrrakort eru einnig væntanleg í blómabúðir og verslanir fljótlega. Við kíktum í heimsókn til þessarar hæfileikaríku stúlku.  

Sannarlega falleg kort hjá Ragnheiði.

Glænýtt kort úr smiðju Ragnheiðar.

Húrrakort voru kynnt til sögunnar á Facebook í ágúst þegar Ragnheiður útbjó Facebook-síðu, þar sem handgerðu kortin hennar eru auglýst til sölu. „Ég teikna líka kort út frá sérpöntunum og það getur verið skemmtileg áskorun. Ég var t.d. beðin um að gera kort fyrir skák-áhugamann,“ segir Ragnheiður og brosir breitt. Það kemur sér vel í þessum bransa hversu dugleg hún hefur verið í tímans rás að krota og æfa sig í að teikna allt mögulegt. „Svo er von á prentuðum Húrrakortum í blómabúðir og fleiri verslanir fljótlega, þau fara í prentun seinna í mánuðinum. Ég pæli líka mikið í allskonar pennum og tússlitum í tengslum við kortin. Það er til svo margt sniðugt sem hægt er að nota við svona kortagerð.“

Dæmi um mynstur sem Ragnheiður teiknar og hefur verið notað á tækifæriskort.

Verfærin er mörg og mikilvæg.

Fígúra sem Ragnheiður teiknaðu og málaði á striga.

Jólakort, merkimiðar og afmæliskort
Í stuttu spjalli segir móðir Ragnheiðar, Áslaug Guðjónsdóttir, að dóttir hennar hafi mikla þolinmæði á þessu sviði, sé mjög vandvirk og hugsi um öll smáatriði. „Við sáum strax þegar hún var á leikskólaaldri að auk þess að hafa brennandi áhuga á þessu bjó hún yfir miklum hæfileikum. Haustið 2018 hvatti ég Ragnheiði til þess að útbúa kort. Þá var hún alltaf að teikna og skrifa alls kyns letur. Ég stakk upp á því að hún útbyggi jólakort og merkimiða sem við foreldrarnir myndum svo kaupa af henni og hún skyldi endilega athuga hvort ömmurnar hefðu áhuga líka, sem þær svo sannarlega höfðu. Hún tók vel í þetta og allt fór af stað.“ Í kjölfarið gerði Ragnheiður einnig afmæliskort eftir pöntunum frá fjölskyldunni. Þannig fann hún farveg fyrir áhugann og hæfileikana og skapaði sér í leiðinni vinnu og núna er þessi Facebook síða komin í loftið. Aðspurð að endingu um önnur áhugamál segir Ragnheiður það vera dans, hlaup, bakstur og innanhússhönnun. „Ég gæti alveg hugsað mér að læra innanhússarkitektúr seinna.“

Listræn mynd sem Ragheiður teiknaði þegar hún var á leikskóla.

Ragnheiður og bekkjarsystur. Teiknað 2011, þegar hún var að verða/nýorðin 7 ára.

Myndir OBÞ