Knattspyrnukonan Sara Björk Gunnarsdóttir var kjörin Íþróttamaður ársins undir lok síðasta árs, sjöunda í röð kvenna eftir sjöundu tilnefninguna í röð. Sara Björk hóf sinn feril hjá Haukum og var aðeins 16 ára valin í landsliðið. Hún fór af landi brott daginn eftir verðlaunaafhendinguna en Fjarðarpósturinn kíkti í heimsókn til stoltra foreldra hennar, Guðrúnar Valdísar Arnardóttur og Gunnars Svavarssonar í Áslandinu.

Þetta er minni bikarinn sem Ingi í Sign hannaði og smíðaði.

Foreldrar Söru Bjarkar voru staddir í sumarbústað með bróður hennar tengdadóttur og barnabarni þegar kjörið á íþróttamanni ársins var tilkynnt. „Við vorum svo klökk og veinuðum af gleði. Þetta var svo stórkostleg stund og full af tilfinningum,“ segir Guðrún Valdís og ljómar í andlitinu þegar hún rifjar þetta upp. „Það var LÍKA svo skemmtilegt hve talan sjö kom sterkt inn í þetta því Sara Björk var tilnefnd í 7. sinn í röð og var 7. konan til að hljóta þessa viðurkenningu og spilar í treyju númer 7.

Það að vera í hópi 10 bestu í 7. sinn, aðeins 28 ára gömul, er bara stórkostlegt,“ segir Gunnar. Guðrún bætir við: „Við höfum hingað til skipst fjölskyldan á að koma með henni við þessa athöfn og með því að vera þarna þá áttuðum við okkur betur á þeim afrekum sem eiga sér stað í íþróttaheiminum á Íslandi. Það eru svo mörg aðildarfélög innan ÍSI og margt efnilegt íþróttafólk. Það að vera í topp 10 er miklu stærra en maður áttar sig í raun á.“

Handhafar bikarsins síðan 2006.

Meiddist í skólaferðalagi

Sara Björk hóf sinn knattspyrnuferil hjá Haukum og varð fljótt í fremstu röð leikkvenna þar. Hún var komin í úrtak fyrir U17 aðeins 14 ára. Óvænt meiðsli settu strik í reikninginn eftir að hún slasaðist í skólaferðalagi, þar sem hún meiddist á hné. Það kom sprunga á lærlegginn og allt slitnaði sem gat slitnað. Þetta var hræðilegt,“ segir Guðrún Valdís. Það tók Söru Björk tæp tvö ár að jafna sig á þessum meiðslum. „Vaxtalínan var ekki lokuð, vegna ungs aldurs, svo að það var ekki hægt að senda hana í krossbanda-aðgerð strax.“

Eins og raun ber vitni var þetta áfall og erfiður tími fyrir viðkvæman og metnaðarfullan 14 ára ungling. Að frumkvæði þjálfara Söru Bjarkar hjá Haukum, Magneu Helgu Magnúdóttur, tók hún að sér að vera aðstoðarþjálfari hennar í 4. og 5. flokki. „Hún lét Söru Björk vera áfram hluta af hópnum þótt hún gæti ekki æft eða spilað. Það skipti miklu máli og þetta hafði mjög mikið að segja. Við verðum henni alltaf þakklát fyrir þetta,“ segir Guðrún Valdís. Sara Björk naut líka dyggs stuðnings Gunnars föður síns, sem var á sínum tíma aðstoðarmaður þjálfaranna hennar frá 5. flokki og upp í meistaraflokk.

Sara Björk og félagar hennar í Haukum á sínum tíma, ásamt þjálfara.

Sara Björk hefur alltaf verið félagslynd, lífleg og uppátækjasöm.

Fjölskylduvænt uppeldi

„Þetta var hörkuvinna hjá okkur sem foreldrum. Við fórum á öll mót og allt sem þessu fylgdi. Við kynntumst svo mörgu frábæru fólki og það myndaðist ákveðin stemning og umgjörðin var svo skemmtileg. Foreldrastarfið hjá Haukum á þessum tíma var frábært,“ segja Guðrún Valdís og Gunnar og að mikilvægt í tengslum við árangur barna í íþróttum sé að mæta á alla leiki og fylgjast líka með á æfingum, allavega annað foreldrið í senn. „Við tókum líka hlaupa- eða boltaæfingar saman úti. Við bárum líka út blöð á morgnana fjölskyldan og ýmsa pésa og leyfðum krökkunum að finna hvernig er að vinna fyrir sér og hafa fyrir hlutunum og til að greiða fyrir áskrift að enska boltanum. Hjá okkur var uppeldið fjölskylduvænt og við ræddum málin við matarborðið. Það skiptir líka máli að þekkja hina krakkana í liðinu og ræða og útkljá öll samskiptamál jafn óðum,“ segir Gunnar og Guðrún Valdís bætir við: „Mér finnst, þegar litið er til baka, standa upp úr öll umgjörðin hjá Haukunum og sterka fjölskyldueiningin þar sem byggði upp þennan grunn sem Sara Björk fékk sem knattspyrnukona. Við verðum þeim alltaf þakklát fyrir það.

Nokkrir fjölskyldumeðlimir á bikarúrslitaleik 2017.

Mömmunni leiddist enski boltinn

Guðrún Valdís rifjar hlæjandi upp að hún hafi verið algjör „anti-sportisti“ þegar hún kynntist Gunnari. „Mér leiddist t.d. enski boltinn í sjónvarpinu alveg hryllilega. Svo kynntist ég þessu í gegnum krakkana og þá var þetta svo skemmtilegt. Fólk spurði okkur hvort við ættum ekkert líf því fríin okkar voru undirlögð í fótboltastarfið. Við fengum samveru með börnunum í staðinn, sem er svo dýrmæt.“ Spurð segist hún ekki halda með neinu liði í ensku deildinni en Gunnar segist stoltur vera íþróttafrík og auk þess Leeds-ari. Það sé líka hefð í hans ætt.

Þegar foreldrarnir eru beðnir um að lýsa eiginleikum Söru Bjarkar, þá segja þau hana vera góða og blíða en hafa ákveðnar skoðanir, mikið keppnisskap og vera fylgin sér og því sem hún ætlar sér. Þá er hún með sterka réttlætiskennd og stendur fyrir sínu og traustur vinur. Hún og bróðir hennar, Örn Ingi, hafi alltaf verið miklir ærslabelgir og mjög samrýmd systkini. Hann æfði líka fótbolta um tíma. „Sara Björk hefur alltaf verið félagslynd, lífleg og uppátækjasöm. Það var mikið verið að sýna leikrit, skapa og skipuleggja prógramm þegar stórfjölskyldur hittust þegar hún var barn.“

Systkinin og pabbinn á bikarleik 2018.

Taka til í ísskápnum

þegar von er á Söru heim Samhliða knattspyrnunni kláraði Sara Björk einnig einkaþjálfaranám hjá Keili. „Hún hefur mikinn áhuga á næringarfræði og tekur mataræðið vel fyrir. Það má að hluta til þakka Kristjáni Ómari Björnssyni, sem innleiddi hjá henni mikilvægi mataræðis um 16 ára aldurinn. Hún hefur svo þróað það áfram.“ „Við fáum alveg að heyra það og tökum til ísskápnum þegar það er von á henni heim,“ segir Gunnar og hlær. „Hún er fljót að ná bata þegar hún meiðist og ég held að það hafi mikið að gera með hvernig hún fer með sig, þ.m.t. mataræðið. Hún borðar helst ekki kjöt, það er þungmelt þegar hún er alltaf á fullu. Hún smakkaði reyndar smá rjúpu um jólin.“

Skipt er um búning árlega hjá þýska liðinu. Sá hægra megin er nýjastur.

Þjóðverjar með mikinn aga

Guðrún Valdís og Gunnar reyna að heimsækja Söru Björk tvisvar á ári og finnst það mjög gaman. Þau njóti svo góðs af því að geta hitt hana þegar hún spilar heimaleiki með landsliðinu. „Það er alltaf erfitt þegar börnin búa erlendis en það er miklu auðveldara að vera í sambandi á allan hátt í dag en var hér áður fyrr. Fyrst þegar hún flutti út þá vorum við frekar áhyggjufullir foreldrar en hún hefur sýnt og sannað á þessum 7 árum að hún getur það sem hún ætlar sér. Hún var 5 ár í Svíþjóð og að byrja 3. árið í Þýskalandi. Þarna er góður hópur og gott lið. Þjóðverjar eru með mikinn aga og hika ekki við að beita sektarákvæðum ef ekki er farið eftir reglum. En Sara Björk er mjög ánægð þarna,“ segir Guðrún Valdís og bætir við að Íslendingar séu framar Þjóðverjum á annan hátt, því einn sem kom hingað til lands hafi orðið mjög hissa að bæði kynin á lista yfir bestu íþróttamenn Íslands. „

Öðrum Þjóðverja fannst líka stórmerkiegt að sjá að á Íslandi var gefin út bókin Stelpurnar okkar, saga knattspyrnu kvenna á Íslandi frá 1914. Slíkt yrði líklega aldrei gert í Þýskalandi. Það er mikið karlaveldi þar ennþá og það fær mann til að hugsa um hversu langt að þessu leyti við erum komin miðað við sumar þjóðir og hversu jákvæð umræða um konur í íþróttum er hér á landi. En betur má ef duga skal.“

Mynd af foreldrum: Olga Björt
Aðrar myndir frá foreldrum Söru Bjarkar