Mynd sem hin ánægða Kolbrún smellti af sínum manni í einni af göngum þeirra hjóna.

Til okkar hringdi íbúi í Hafnarfirði, Kolbrún, sem gerir mikið af því að ganga um og njóta náttúrunnar sem bæjarlandið hefur upp á að bjóða. Hún vildi koma á framfæri kæru þakklæti til þeirra sem hafa rutt svo vel göngustíga í nágrenni Hvaleyrarvatns.

Fjarðarpósturinn komst á snoðir um að sá sem á hrósið skilið er Jökull Gunnarsson sem vinnur hjá Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar. Þau hjá Skógræktinni vilja að fólk geti notað stígana árið um kring, enda lögðu þau stígana sjálf á sínum tíma.

Undanfarnar vikur hafa starfsmenn Skógræktarfélagsins unnið að grisjun og snyrtingu skóga félagsins m.a. í Langholti, Kjóadalshálsi og víðar. Einnig hefur verið farið um vegi í upplandinu og tré og runnar sem skaga út á akvegi og göngustíga söguð, klippt og snyrt.

Ofangreind mynd, sem birt var á vef Skógræktarfélagsins, var tekin 30. janúar 2019 í Langholtinu skammt sunnan við Þormóðshöfða. Á myndinni eru Árni Þórólfsson og hinn hrósaði Jökull Gunnarsson starfsmenn félagsins við þarfasta þjóninn, sexhjólið sem hjónin Halldóra og Þórólfur gáfu félaginu árið 2017.

Á bakvið Árna og Jökul eru alaskaaspir sem gróðursettar voru fyrir um 20 árum þarna uppi á skjóllausu, grýttu holtinu. Ljósmynd: Steinar Björgvinsson

Myndir frá Kolbrúnu og af vef Skógræktarfélagsins.