Gildandi deiliskipulag fyrir Hrauntungu 5 var samþykkt í bæjarstjórn 12. júní á síðasta ári að undangengnu nánu íbúasamráði. Nú hefur lóðin verið seld og óskar lóðarhafi eftir breytingu á nýsamþykktu deiliskipulagi til þess að geta fjölgað íbúðum og bifreiðarstæðum og breyta húsagerð, sem hefur veruleg áhrif á umhverfið og götumyndina. Íbúarnir eru settir aftur í sömu stöðu og áður, en nú án alls samráðs eða samtals. Breytingartillagan byggir auk þess ekki á vandaðri vinnu þar sem tekið er tillit til eldri byggðar, skuggavarps og umhverfis. Öll vinnan og kostnaðurinn sem bæjaryfirvöld lögðu í deiliskipulagsvinnuna er að engu orðin og sama má segja um sáttina við íbúa. Hefja þarf allt ferlið upp á nýtt með öllu sem því tilheyrir.

Þetta eru vond vinnubrögð til vitnis um hringlanda í stjórnsýslu og ekki til þess fallin að auka tiltrú eða traust almennings til skipulagsmála í Hafnarfirði. Mikilvægt er að vanda til verka og eiga samráð við íbúa. Af þessar ástæðu bókaði fulltrúi Samfylkingarinnar mótmæli við tillögu að breytingu á deiliskipulagi við Hrauntungu 5. Íbúar eiga að geta treyst því að staðið sé við gefin loforð.

Stefán Már Gunnlaugsson
Fulltrúi Samfylkingarinnar í skipulags- og byggingarráði