Jón Þórðarson (Nonni) og Linda Hilmarsdóttir, eigendur heilsuræktarstöðvarinnar HRESS við Dalshraun 11 eru réttkjörnir Hafnfirðingar ársins 2019 af lesendum og fylgjendum Hafnfirðings, fyrir árlega Hressleika. Afgerandi meirihluti atkvæða féll þeim í skaut, eða 40%. Í öðru sæti var rithöfundurinn Bergrún Íris Sævarsdóttir með 22% og í því þriðja Páll Eyjólfsson, rekstrarstjóri Bæjarbíós, með 10% atkvæða. Alls átta fengu tilnefningar. Hafnfirðingur hitti hjónin Nonna og Lindu á heimili þeirra við Fjóluhvammi hér í bæ.

HRESS var fyrst opnuð á 3. hæð við Bæjarhraun 4 árið 1987 og Linda kenndi þar jazzballet. Árið 1992 ákvað Linda að kaupa HRESS og hefur rekið stöðina síðan. „Það var mjög erfitt í upphafi að vera ein í öllu. Nonni kom óvænt inn í líf mitt árið 1995, og plataði ég hann í smá viðhald, og við höfum í raun verið saman síðan. Það þurfti bara eitt símtal til,“ segir Linda og bætir við að Nonni hafi þekkt vel til reksturs og í dag séu þau hjón með aðskilda, sérhæfða vinnuferla. „Hann sér um daglegan rekstur. Ég sé um starfsfólk og markaðsmál.“

Hittust fyrst 9 og 14 ára
Linda er fimm árum eldri en Nonni og til eru myndir af þeim í fermingarveislu hjá Ellu systir Nonna. „Ég var 14 ára og hann 9 ára. Okkur hefði síst af öllum dottið í hug þá að við ættum eftir að verða par. Ég á eina minningu frá skólaárunum af honum, í skólarútunni.“ Þau hlæja bæði og eru augljóslega samheldin og hafa góðan húmor hvort fyrir öðru. Dætur þeirra eru tvær, Nótt og Embla. „Þegar við kynntumst átti Nonni íbúð og ég HRESS. Reksturinn gekk ekki vel en ég skuldaði nokkrar milljónir. Við seldum íbúðina hans og fluttum inn á foreldra Nonna, í gamla herbergið hans aftur. Ég og yngsti prinsinn þeirra,“ segir Linda og fórnar höndum. Hún bætir við: „Við fengum lán út á húseignir foreldra okkar. Við höfum lagt mikið undir og á okkur en sem betur fer haldið sjó.“

Karlmenn bættust í kúnnahópinn
Nonni kemur inn í umræðuna og bendir á að á þessum tíma hafi þau þó verið að kaupa Dalshraun 11. „Við fengum húsið afhent sama dag og frumburðurinn fæddist. Þá áttum við eftir að innrétta húsnæðið og kaupa tæki. Við vorum sniðug og keyptum nánast öll tæki á góðu verði af æfingastúdíói í Njarðvík sem var að hætta. Þar með var innréttapeningurinn búinn og við hugsuðum að þetta hlyti að reddast!“ Fram að þeim tíma hafði kúnnahópur HRESS aðallega verið konur en við tækjakaupin bættust karlmenn við. „Við vorum líka komin á fyrstu hæð og jarðhæð og höfum stækkað úr 400 fm. í 1000, jafnt og þétt. Við vorum heppin með hversu margir hjálpuðu okkur, t.a.m. feður okkar píparinn og rafvirkinn, mæður, vinir og viðskiptavinir.“

Hressleikarnir verða til
Eins og hjá flestum varð Hrunið þeim Lindu og Nonna áfall árið 2008. „Við börðumst eins og ljón við að fara ekki í þrot og héldum kennitölunni og eignum sem var ekki auðvelt,“ segir Linda. En vegna umræðunnar í þjóðfélaginu vildu þau að HRESS yrði krepputals-laust svæði. „Hressleikarnir urðu til í kjölfar þess því starfsmenn hér vildu hressa viðskiptavinina við og skipuleggja gleðidag til að gleyma hruninu þó ekki væri nema í augnablik og þannig byrjuðu Hressleikarnir. Þetta gladdi alla og samkenndin varð einstök og aðsóknin líka svo að við urðum að selja inn á leikana. Ákveðið var að nota það fjármagn í að styrkja fólk í tímabundnum fjárhagsvandræðum vegna veikinda eða annara áfalla, n.k. okkar skyndihjálp,“ segir Linda og viðurkennir að það hafi sannarlega komið tímar þar sem fjármagnið hefði virkilega þurft í reksturinn en það kom samt ekki til greina. „Fólk kynnist líka vel og stemningin er einstök, sumir halda gott morgunverðarpartý á undan og n.k. árshátíð hjá okkur starfsfólkinu á eftir,“ segir Nonni. „Við vinnum við þetta í mánuð ofan í hina vinnuna okkar og horfum á starfsfólk okkar fórna hellings tíma líka til að láta þetta gerast og fleiri sem að þessu koma. Við erum mjög þakklát fyrirtækunum sem gefa gjafir til þátttakenda og í Hressleikahappdrættið.“

Litla vinalega heilsuræktarstöðin
Um 40 manns starfa hjá HRESS í dag og Linda segir að lögð sé áhersla á vera með litla vinalega heilsuræktarstöð. „Við erum með tækjasal, þolfimisal, hjólasal, heitan sal, booztbar og fría barnagæslu. Þetta passar allt þarna inn einhvern veginn. Við höldum vel í starfsfólk og ótrúlega marga kúnna, þrátt fyrir mikla samkeppni. Ef ég fæ ekki bílastæði fyrir utan þá er ég þakklát því ég veit að þá er nóg að gera og það þarf að hafa fyrir slíku. Við viljum vera þarna áfram því fólkið, kærleikurinn og gleðin heldur okkur gangandi. Allir eru hressir í HRESS.“
Spurð um hvað standi mest upp úr eftir þessi 25 ár saman í rekstri segja Linda og Nonni að hægt sé að tína margt til, eins og t.d. Hressleikana. „Við erum samt þakklátust fyrir að vera Hafnfirðingar ársins. Okkur þykir svakalega vænt um að fá viðurkenningu fyrir okkar störf á þennan hátt. Það stendur upp úr!“
Forsíðumynd/OBÞ