Dagana 11. apríl – 20. maí standa yfir hreinsunardagar í Hafnarfirði og eru íbúar og starfsmenn fyrirtækja hvattir til að taka virkan þátt með því að skipuleggja hreinsunardag eða taka þátt í slíkum degi í sínu hverfi. Starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar í Ráðhúsi og á Norðurhellu, með bæjarstjóra í broddi fylkingar, ætla að hreinsa Víðistaðatún á sameiginlegum hreinsunardegi í dag föstudag og undirbúa túnið þannig fyrir Sumardaginn fyrsta.
Hafnfirðingar og fyrirtæki í Hafnarfirði eru upp til hópa meðvituð um umhverfi sitt og hafa á síðustu misserum lagt sitt að mörkum til hreinsunar og tiltektar í sveitarfélaginu. Þetta framlag skiptir sköpum og fyrir vikið verður sveitarfélagið hreinna fyrr að vori og stefnir allt í að það verði hreint og fínt allt árið um kring með þessu áframhaldi. „Þetta snýst allt um að hver og einn íbúi, hver og einn starfsmaður og hver og einn vinur Hafnarfjarðar sýni ábyrgð og beri virðingu fyrir umhverfinu. Flokkum ruslið og plokkum draslið. Ef allir leggjast á eitt þá blómstrar umhverfið og við líka. Árangurinn verður ekki sýnilegur fyrr og því vil ég hvetja alla íbúa og starfsmenn til að hreinsa nærumhverfið samhliða hreinsun innan lóðarmarka. Ef flokkun á heimilissorpi er svo tekin alla leið líka þá mikill sigur unninn,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar.
Stóri Plokkdagurinn, á vegum hópsins Plokk á Íslandi, verður haldinn sunnudaginn 28.apríl og er áherslan í ár á Reykjanesbrautinni sem er má segja heimreið stór-höfuðborgarsvæðisins og um hana aka mörg þúsund erlendra gesta og Íslendinga alla daga ársins. Hafnarfjarðarbær mun taka virkan þátt í Stóra Plokkdeginum og hvetur alla íbúa og vini Hafnarfjarðar til að gera það líka.
Mynd: Hér má sjá þau Rósu bæjarstjóra og Tómas J. Knútsson stofnanda Bláa hersins og baráttumann fyrir hreinu Íslandi á góðum degi í Hafnarfirði þar sem umræðuefnið var m.a. umhverfisvakning og hreinsun.