Hinn árlegi umhverfisdagur Öldutúnsskóla var í dag og fóru allir nemendur og starfsmenn skólans út og hreinsuðu skólalóðina og skólahverfið. Vinaárgangar fara saman í verkefnið, þar sem eldri nemendur aðstoða yngri.

Til að mynda voru 1. og 6. bekkur saman, 2. og 7. bekkur o.s.frv. Umhverfisdagurinn er í samvinnu við Hafnarfjarðarbæ sem lánar skólanum áhöld til hreinsunar. Einnig sækja starfsmenn bæjarins ruslið sem nemendur og starfsmenn týna. Markmið með þessu verkefni er meðal annars að auka tilfinningu nemenda fyrir snyrtimennsku í umhverfinu og kenna þeim ákveðin vinnubrögð við umhirðu.

Nemendur létu smá vind og rigningu ekki á sig fá og tóku hressilega til í kringum skólann og í hverfinu. Í lok umhverfisdagsins grilluðu nemendur í 10. bekk pylsur handa öllum nemendum og starfsfólki. Fleri myndir og nánari umfjöllun má finna á vefsíðu Öldutúnsskóla.

Myndir/Öldutúnsskóli. 

Við hjá Fjarðarpóstinum hvetjum þá 9 grunnskóla í bænum, auk 17 leikskóla, eindregið til að senda okkur skemmtilegt efni út starfi skólanna í ritstjorn@fjardarposturinn.is.

Kátir og duglegir nemendur.

Skólastjórinn Valdimar Víðisson tók að sjálfsögðu til hendinni.

Réttur klæðnaður, réttu græjurnar og rétta við horfi er allt sem þarf.

Góð tilfinning fylgir því að hreins til í kringum sig.