Frá og með deginum í dag verður hægt að fara í hraðpróf vegna COVID-19 í Hafnarfirði, nánar tiltekið að Reykjavíkurvegi 76. Í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ hefur TestCovid.is, sem er hluti af Öryggismiðstöðinni, sett upp hraðprófunarstöð. Hraðprófunarstöðin verður í stærra lagi og kemur til með að anna allt að 1000 prófum á dag. Opið verður alla daga frá kl. 8-16 og hefur þegar verið opnað fyrir bókanir á testcovid.is
Öryggismiðstöðin er eitt þeirra fyrirtækja sem rekur hraðprófunarstöðvar á höfuðborgarsvæðinu hefur tekið tugþúsunda hraðprófa á þremur prófunarstöðum. Stöðin á Reykjavíkurvegi 76 er fjórða stöðin. Um er að ræða svokölluð antigen-hraðpróf og eru niðurstöður úr þeim oftast fáanlegar innan hálftíma frá því að prófið er tekið. Niðurstöður slíkra prófa eru á tímum samkomutakmarkana krafa á öllum samkomum þar sem 50 eða fleiri koma saman auk þess sem framvísun á neikvæðum niðurstöðum úr slíku prófi getur verið krafa í löndum sem ferðast er til.

Um hraðpróf Testcovid.is
- Clinitest hraðprófið frá Siemens hefur sýnt fram á 99,22% áreiðanleika
- Prófunin er vottuð af heilbrigðisráðuneytinu og unnin í samstarfi við Sameind rannsóknarstofu
- Hraðprófið er ókeypis
- Hægt er að velja um fjórar staðsetningar – nýjasta viðbótin er í Hafnarfirði
- Vinsamlegast verið á staðnum 5-10 mín fyrir bókaðan tíma
- Lengd hraðprófsins og biðin eftir niðurstöðu tekur um 15-30 mínútur
- QR-kóði berst í tölvupósti sem sýna þarf á tökustað þegar mætt er í hraðprófið
- 15 ára og yngri þurfa að vera í fylgd með forráðamanni
Aðsendar myndir: Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri mætti í hraðpróf í gærmorgun og hitti þar Ómar Brynjólfsson framkvæmdastjóra AVIÖR.