Í dag og næstu daga er útlit fyrir fyrsta vetrarstormi ársins með stórhríð og ísköldu heimskautalofti sem eykur frostið enn meir. Á viðvörunarbef Veðurstofu Íslands má sjá gular viðvaranir um nánast allt land. Vaxandi norðanátt er í kortunum og ekki er gert ráð fyrir að vind lægi fyrr en eftir hádegi á föstudag.

Það er eins gott að vera komin á vetrardekkin, fjárfesta í mannbroddum og fara ofurvarlega þessa daga sem stormurinn gengur yfir.

Veðurhorfurnar eru annars þessar:

Á fimmtudag:

Norðan 18-25 m/s, en 23-28 í vindstrengjum á suðaustanverðu landinu. Snjókoma eða él norðan- og austanlands. Sums staðar dálítil él sunnan heiða. Frost 2 til 8 stig.

Á föstudag:

Norðan 13-20, en hvassara suðaustantil. Él á Norður- og Austurlandi, en bjartviðri sunnan- og vestanlands. Lægir og styttir upp seinnipartinn, fyrst vestast á landinu. Herðir á frosti.

Á laugardag og sunnudag:

Hæg suðvestlæg eða breytileg átt. Víða bjartviðri, en stöku él syðst á landinu og einnig á Vestfjörðum. Frost 5 til 18 stig.


Mynd/OBÞ – Helgafell í vetrarbúningi