Hjónin Ýr Káradóttir og Anthony Bacigalupo keyptu efri hæð Suðurgötu 9 fyrir 6 árum og þá neðri árið 2017. Húsið er eitt af elstu húsum Hafnarfjarðar, byggt árið 1884. Garðurinn var áratugum saman í mikilli órækt. Ýr og Anthony hafa heldur betur tekið til hendinni og útbúið þar notalegan garð og reka í bakgarðinum hönnunarbúðina The Shed. Þau fengu fyrir skömmu viðurkenningu Snyrtileikans fyrir framtak sitt í að fegra umhverfið.

Í tilvitnun með viðurkenningunni segir m.a. að gróðurinn í garðinum sé fjölbreyttur og greinilega mikill áhugi á garðyrkju á ferð. Það fór ekki á milli mála þegar við kíktum við fyrr skömmu. Anthony segir að þegar þau fluttu í húsið hafi garðurinn einungis verið möl og grjót, fyrir utan eina sjálfsprottna birkihríslu. „Ég er mikill áhugamaður um garðyrkju og verandi hálfur Ítali og hálfur Mexíkói frá litlum bæ í Kaliforníu, innan um vínekrur og kúreka, varð ég að kynna mér ýmislegt um íslenskar aðstæður. Ég fór til Steinars hjá Gróðrastöðinni Þöll, við náðum góðum tengslum og hófum samvinnu við að búa til garð hér, m.a. með plöntum sem við vissum ekki hvort myndu lifa af íslenskar aðstæður.“




Fjöldi trjáa kominn yfir 100
Til að búa til zen-garðinn fyrir utan skúrinn þurftu hjónin að grafa stóra holu og þau byrjuðu með skóflum og hökum, en enduðu á að fá stórvirkari vinnutæki. Einnig þurfti að kaupa mikið magn af mold og sett var kurl ofan á til halda illgresi frá. Fjöldi trjáa í garðinum er þegar kominn yfir 100, mörg víða að úr heiminum og einnig hafa þau fengið túlípanalauka t.d. frá Hollandi og eikartré frá Kaliforníu. Það mætti segja að þar sé nokkurs konar samansafn trjáa og plantna með sögu. Anthony segir allt hafa vaxið og dafnað mjög vel og er einnig afar stoltur af samstarfi við hafnfirska fyrirtækið Torf sem útvegaði þeim lyng á þökin á hænsnahúsinu og skúrnum. „Garðurinn hérna hægra megin var það eina sem við áttum þar til 2017. Hitt tilheyrði neðri hæðinni. Það eru forréttindi í okkar augum að hafa getað mótað okkar eigin garð frá grunni því margir kaupa löngu úr sér gengna garða sem fylgja húsum.“


Jólaljós í 24 metra hátt tré
Anthony og Ýr reka fyrirtækið Reykjavik Trading Co og gestaheimili í húsinu undir nafninu The Garden Cottage. Þau segja marga ferðamenn leita þau uppi í gegnum samfélagsmiðla til að fá að upplifa samveru með innfæddum Hafnfirðingum. „Við bendum gestum á að sækja þjónustu í Hafnarfirði, ganga um bæinn og skoða. Hingað ráfa líka margir og verða forvitnir,“ segir Ýr.
Hafnarfjarðarbær á grænt svæði sem liggur við garð þeirra hjóna og þau eru með hænsnakofa við lóðamörkin. Á græna svæðinu er 24 metra hátt grenitré, eitt af elstu og fallegustu trjám í bænum. Eftir að Dvergur var rifinn þá sést í tréð frá Lækjargötu og Anthony fékk nýlega samþykki frá bænum til að setja ljósaperur í það á aðventunni. „Okkur langar að hafa viðburði hér á græna svæðinu tengda hátíðum í bænum og geta boðið fólki heim. Þetta er tilvalin staðsetning og samvinna með bænum en ánægjuleg,“ segir hann brosandi að endingu.
Opið hús verður í The Shed næstkomandi laugardag á milli kl. 15 og 18. Hér er viðburðurinn á Facebook.
Hér er vefsíða fyrirtækis þeirra, Reykjavík Trading.
Myndir frá Suðurgötu 9: Anthony.
Þessi umfjöllun er samstarf.