Í nótt skýrist það í borg kvikmyndanna, Hollywood, hvort hafnfirska tónskáldið Hildur Guðnadóttir verður fyrsti Íslendingurinn til að hljóta Óskarsverðlaunin. Hildur hefur hreppt öll eftirsóttustu og virtustu verðlaun á hátíðum á þessu ári fyrir tónlist í kvikmyndinni Joker og sjónvarpsþáttunum Chernobyl. Við heyrðum í móður Hildar, Ingveldi Ólafsdóttur og fyrrum tónlistarkennara hennar, Oliver Kentish.
Hildur er stödd ásamt fjölskyldu sinni í Hollywood og þegar við heyrðum aðeins í móður hennar, Ingveldi, var förðunarfræðingurinn að koma til þeirra til að gera hópinn sem glæsilegastan fyrir kvöldið. „Það er stórkostlegt að vera hérna, að sjálfsögðu. Ég vil taka fram að mér hefur alltaf fundist Hildur tilkomumikil og glæsileg. Þetta er gríðarlega mikill árangur að komast hingað og stórkostlegt að hirða öll verðlaun sem hægt er að fá fyrir það sem hún hefur gert. Mjög góð uppskera. Við erum alltaf stolt af því að vera Hafnfirðingar og við sendum kærar kveðjur til allra í firðinum okkar, “ sagðir Ingveldur, að vonum kát.

Hafði snemma sína meiningu og nálgun í tónlistinni
Hildur hóf nám í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar sjö ára gömul á selló hjá kennaranum Oliver Kentish og er Hildur þegar orðin stór fyrirmynd ungra nemenda þar, samkvæmt heimildum Hafnfirðings. Í samtali við Hafnfirðing segist Oliver, sem starfaði í 25 ár við tónlistarskólann, að vonum vera afar stoltur af fyrrum nemanda sínum.
„Hún hafði snemma sína meiningu og nálgun í tónlistinni og var farin ung að semja tónlist. Hún var ákveðin og skemmtileg og þegar við unnum saman sá ég að við yrðum að gera annað en að fara eftir bókinni; finna aðra nálgun,“ rifjar Oliver upp og bætir við að það sé frábært hvað Hildur sé komin langt og að hann fylgist vel með henni. „Mér finnst ég eiga örlítið í henni. Hún er dugnaðarkona og frábært hvað hún er komin langt.“ Aðspurður segir Oliver að vegna aldurs ætli hann ekki að vaka í nótt og horfa á verðlaunaafhendinguna, en hann hlakka til að skoða fréttir í fyrramálið.

Mynd í eigu Olivers.
Flestir sérfræðingar virðast sammála um að Hildur Guðnadóttir hljóti þessi eftirsóttu verðlaun fyrir tónlistina við kvikmyndina Joker sem er tilnefnd til 11 óskarsverðlauna. Það þykir ekki einkennilegt, því hún hefur á stuttum tíma sópað að sér eftirfarandi verðlaunum; Emmy, Golden Globe, Critics Choice Award og Grammy.
Harður keppinautur einnig tilnefndur
Það sem helst er talið geta komið í veg fyrir sigur Hildar, er að helsti keppinautur, Thomas Newman, er tilnefndur í fímmtánda sinn (fyrir tónlistina í kvikmyndinni 1917) og hefur aldrei unnið.
Afhending verðlauna fyrir bestu tónlistina eru 19. í röðinni, þegar veitt hafa verið verðlaun fyrir bestu erlendu kvikmyndina. Ekki er ólíklegt að fjöldi Hafnfirðinga verði syfjaður á morgun, enda mikil spenna og áhugi fyrir þessari 92. Óskarsverðlaunahátíð meðal bæjarbúa. Við segjum að sjálfsögðu: Áfram Hildur!
Hér eru nokkur dæmi um hina magnþrungnu tónlist Hildar af Youtube.