Þær frábæru fréttir bárust nýlega að körfuknattleiksmaðurinn Hilmar Smári Henningsson hafi skrifað undir samning við stórveldi Valencia í spænsku úrvalsdeildinni og núverandi EuroCup meistara. Hann fylgir þarna í fótspor Kára Jónssonar sem gerði samning við Barcelona fyrir stuttu síðan. Þarna hafa á stuttum tíma tveir efnilegir Haukamenn gengið til liðs við ein af stærstu liðum Evrópu og við verðum aðeins að staldra við og klappa fyrir þeim.

Hilmar Smári Henningsson.

Það er alveg klárt að svona árangur næst ekki auðveldlega og það þurfa mörg púsl að passa saman svo að þessir hlutir geta gerst. Óbilandi trú og fórnfýsi þessara drengja spilar þar stórt hlutverk og það má nefna það að bæði Hilmar og Kári eru afskaplega auðmjúkir og góðir drengir, kurteisir við allt og alla og bera mikla virðingu fyrir sér og öllum í kringum sig.

Það sem mig langar að benda á í þessari grein eru þær fyrirmyndir sem þarna verða til. Bæði Hilmar og Kári miðla fúslega af sinni reynslu til sér yngri liðsfélaga og eru mörg hundruð ungra drengja og stúlkna gegnheilar fyrirmyndir. Þau líta til þeirra og sjá að ef þau hafa vilja og metnað til, þá liggja þeim sömu vegir færir.

Landsliðsfólk Hauka.

En það eru fleiri púsl í spilinu sem mig langar að benda á. Haukar hafa aðgang að einni bestu aðstöðu til körfuboltaiðkunar sem til er á Íslandi og þótt mikið víðar væri leitað. Þarna ber að þakka samstarf við bæjaryfirvöld og þeim metnaði sem hefur verið hjá þeim og stjórnarfólki Hauka að koma upp þessum mannvirkjum. Einnig hafa þeir fengið góða þjálfun í gegnum tíðina og það er okkur mikið hugarefni að byggja vel undir alla yngriflokka þjálfun um komandi ár en Haukar hafa alla tíð átt gríðar sterka yngriflokka hjá bæði stelpum og strákum. En ungir leikmenn verða að hafa eitthvert að stefna!

Það vill oft brenna við að rekstur á afreks íþróttaliði í meistaraflokkum er litinn ákveðnu hornauga. Þangað fara stundum töluverðir fjármunir og það eru skiptar skoðanir á því hvernig er best að verja þeim peningum. Fyrir ári síðan lentu Haukar í því að missa heilt byrjunarlið frá sér þegar Kári fór til Barcelona, Breki Gylfasón fór á körfuboltastyrk í háskóla í Bandaríkjunum, Finnur Atli Magnússon flutti til útlanda og Emil Barja stökk yfir til KR og henti í einn Íslandsmeistaratitil (Emil er kominn samt aftur heim). Fá lið á landinu hefðu staðið þetta af sér en þar sem Haukar hafa gríðarlegt bakland af hæfileikaríkum ungum leikmönnum kom maður í manns stað. Bæði karla- og kvennaliðin eru nánast eingöngu byggð upp af uppöldum heimakrökkum og bæði verða þau í fremstu röð á Íslandi á næsta tímabili.

Mikilvægi þess að reka öfluga meistaraflokka er gríðarlegt. Metnaðarfullir ungir leikmenn verða að hafa öflugan meistaraflokk til þess að stefna á og ekki bara það, heldur öflugan meistaraflokk sem hafa að geyma fyrirmyndir. Leikmenn eins og Hilmar og Kára sem geta þarna fengið að þrífast og þróast sem leikmenn þangað til að þeirra markmiðum er náð, hvort sem það er að spila vel á Íslandi í góðu liði eða fara í atvinnumennsku.

Frá A landsliðsæfingu karla.

Það er því alveg jafn mikilvægt að reka öfluga meistaraflokka eins og að halda úti öflugu starfi í yngri flokkum. Þessir tveir hlutir fylgjast að og geta helst ekki án hvors annars verið. Ekki ef skila á leikmönnum í stærstu deildir Evrópu.

Þótt ég ræði hér mikið um að gefa metnaðarfullum krökkum greiða leið til þess að ná sínum markmiðum, þá erum við ekki öll eins. Innan Körfuknattleiksdeildar Hauka fara einnig fram metnaðarfullar æfingar fyrir krakka með sérþarfir. Þau eiga líka að fá allan þann stuðning sem þarf til þess að ná sínum markmiðum. Þetta starf er leitt áfram af Kristni Jónassyni í samstarfi við KKÍ og Íþróttasamband fatlaðra. Hver veit nema að við eigum eftir að sjá okkar liðsmenn sækja Special Olympics heim sem stolt afreksfólk Hauka.

Kristinn Jónasson, ásamt nemendum.

Hafnarfjörður má vera stoltur af þeim leikmönnum og fyrirmyndum sem þarna verða til. Þótt það séu mörg mismunandi íþróttafélög í Hafnarfirði er bara eitt körfuboltalið og því erum við öll Haukafólk þegar það snýr að körfubolta.

Á komandi tímabili munum við stilla upp sterkum liðum í karla- og kvennaflokki, byggðum á heimakrökkum sem hafa alist upp á fjölum Ásvallar. Við munum hefja tímabilið í nýjum íþróttasal, Ólafssal, kenndan við einn uppáhaldsson Hauka, Ólaf Rafnsson. Þar munum við leggja mikinn metnað í umgjörð og stemningu sem verður gaman að heimsækja, en einnig til þess að veita upprennandi leikmönnum og yngri félagsmönnum hvatningu til að ná langt.

„Einn daginn, ef ég legg mig fram, get ég spilað í þessum sal og með þessari umgjörð og með þessum fyrirmyndum“.

Þessa hugsjón verðum við að vernda og það verður aðeins gert með samstarfi Hafnarfjarðarbæjar, stuðningsfólks og fyrirtækja í bænum. Við hvetjum alla til þess að gerast meðlimir í stuðningsmannaklúbbi Hauka, Haukar í Horni, með því að senda tölvupóstfang á korfubolti@haukar.is og fyrirtækin í bænum hvetjum við til þess að heyra í okkur og fá okkur í heimsókn. Þar getum við kynnt betur það starf sem fer fram í körfuknattleiksdeildinni og ýmsa möguleika á samstarfi.

Ef við Hafnfirðingar stöndum saman og hlúum að því körfuboltastarfi sem fer fram á Ásvöllum getum við litið stolt til enn fleiri heimalinga sem fara út í heim og gera það gott og verða svo í framhaldinu sterkar fyrirmyndir fyrir börnin okkar.

Með Haukakveðju,

Bragi Hinrik Magnússon

Formaður Körfuknattleiksdeildar Hauka

Þessi greinarbirting er samstarf Fjarðarpóstsins og Hauka.