Karatefólk úr Haukum var meðal keppenda á fyrsta Grand Prix móti tímabilsins sem haldið var um liðna helgi. Grand Prix mót er bikarmótaröð unglinga 12-17 ára og Haukar áttu tvo keppendur á mótinu, þau Hjördísi Helgu Ægisdóttur og Mána Gunnlaugsson.
Hjördís Helga endaði í öðru sæti í Kata og þriðja sæti í Kumite. Úrslitaviðureignin í Kata var æsispennandi en Hjördís þurfti að lokum að sætta sig við að tapa með minnsta mögulega mun.
Þetta var fyrsta mótið af þremur og nóg af stigum eftir í pottinum fyrir Hjördísi til að sigra mótaröðina.
Máni Gunnlaugsson var að keppa á sínu fyrsta móti og þó að Máni kæmist ekki á verðlaunapall að þessu sinni, er það mál manna að hann hafi staðið sig afskaplega vel.
Hjördís Helga Ægisdóttir /Mynd: Olga Björt