Síðustu 20 ár geta vel verið kölluð áratugir hjólsins. Eftir tímabil þar sem hjólreiðar þóttu eingöngu eiga erindi við börn og einstaka sérvitringa fór hægt og hljótt af stað vakning í hjólreiðum sem leiddi til þess að sífellt fleiri tóku hjólafáka í sína þjónusta á ferðum sínum.

Ástæður vaxandi vinsælda hjólreiða er samspil margra þátta á borð við  aukna umhverfisvitund, ásókn í heilbrigða hreyfingu og breytt byggðarmunstur.

Hjólreiðar sækja stöðugt í sig veðrið. Það kemur ekki á óvart enda hefur það sýnt sig að stór hluti af ferðum okkar er innan þriggja kílómetra sem er fjarlægð sem auðveldlega má hjóla á 10 mínútum.

Heilsuáhrif hjólreiða eru í raun ótrúleg. Það hefur meðal annars komið í ljós að þeir sem hjóla til vinnu minnka líkurnar á hjartasjúkdómum um helming. Hjólreiðar hafa einnig sýnt jákvæð áhrif á andlega heilsu, bæta svefn og styrkja stoðkerfið.

Með þetta í huga þá ætti mesti íþróttabær Íslands einnig að vera mesti hjólreiðabærinn.

Því miður er staðan ekki þannig í dag. Uppbygging í Hafnarfirði hefur að allt of miklu leyti miðast við að byggja upp hraðbrautir inni í bænum með tilheyrandi slysahættu, hávaða og svifryki.

Á sama tíma og sjálfsagt þykir að leggja fjármagn í hin ýmsu hringtorg og hraðaaukandi aðgerðir hefur nær ekkert fjármagn verið sett í hjólastíga í bænum. Niðurstaðan af þessu fjársvelti eru mælanlegar. Nýjasta ferðavenjukönnun Vegagerðarinnar sýnir að hjólreiðar standa í stað eða jafnvel dragast saman sem samgönguvalkostur í Hafnarfirði á meðan fjárfesting annarra sveitafélaga skilar sér í aukningu.

Þessu vill Viðreisn breyta.

Við viljum gera hjólreiðum hátt undir höfði í bænum okkar. Hér eiga hjól að sjást á hverju strái. Hjólakerfið okkar á að vera hugsað 8 – 80. Það þýðir að 8 ára ungmenni og 80 ára borgari eiga að geta hjólað milli staða hættulaust.

Það er oft máluð sérkennileg mynd af framtíðinni með svífandi bílum í lúgusjoppum á tunglinu. Raunveruleikinn er miklu einfaldari. Hafnarfjörður í framtíðinni mun einkennast af miklum fjölda gangandi og hjólandi vegfaranda sem kjósa að fara leiða sinna á umhverfisvænan og heilbriðgðan hátt.

Viðreisn mun leggja höfuðáherslu á þessa framtíðarsýn fyrir Hafnarfjörð.

Auðbjörg Ólafsdóttir, áheyrnarfulltrúi Viðreisnar í Fræðsluráði Hafnarfjarðarbæjar.