Fjölmargir ungir sem eldri prófuðu Hjartasvellið, nýja skautasvellið í bakgarði Bæjarbíós, í dag og í kvöld. Meðal annars voru þar þaulvanir ungir hokkískautarar sem voru alsælir með aðstöðuna. Einnig fjölskyldufólk og bros á hverjum vanga. Bergdís Norðdahl, ljósmyndari Hafnfirðings, kíkti við og smellti af nokkrum myndum. Auk þess ók Jólalestin framhjá um svipað leyti og vakti kátínu eins og ávallt.

Hinn brosmildi og skemmtilegi Markús Marteinn Rúnarsson tekur á móti gestum sem vilja leigja skauta og hjálma.

Stendur vaktir og skerpir skauta

Markús Marteinn Rúnarsson er meðal starfsfólks Hjartasvellsins og hann tók einnig þátt í uppsetningu á því í gær og langt fram á kvöld. Að sögn viðstaddra sýnir Markús fyrirmyndar þjónustulund og mikla útgeislun. Svellið er gert úr gerviísplötum sem líta út eins og ís en eru það þó ekki. Þar af leiðandi eru hvorki vatn né orka notuð til þess að frysta svellið. Hjartasvellið er tilvalin afþreying, upplifun og hreyfing fyrir Hafnfirðinga og gesti jólabæjarins á öllum aldri. Hægt verður að panta tíma fyrirfram á tix.is og skautar verða til láns á staðnum, en einnig má koma með sína eigin.

Við uppsetningu Hjartasvellsins í gærdag á bílastæðinu fyrir aftan Bæjarbíó, sem rekur svellið.
Hér er slóð á síðu tix.is.

Skínandi og ómandi Jólalestin gladdi börn á öllum aldri