Hestamennska – fjölskylduíþrótt
Hestamennska er fullkomin fjölskylduíþrótt: börn eru með foreldrum, stundum ömmum og öfum í hesthúsinu,  í útreiðatúrum og hestaferðum, þar sem foreldrar og börn eru samtíma þátttakendur, ekki þar sem foreldri stendur á hliðarlínu og fylgist með.  Samverustundir eru 2 til 3 klst nær daglega í því að sinna hestunum sínum, spjalla saman, læra um ábyrgð og skuldbindingar gagnvart dýrunum og þar með besta forvörnin gegn t.d. fíkniefnum. 

Hestamannafélagið Sörli – æskulýðsstarfið
Æskulýðsstarfið er afar fjölbreytt bæði með og án hesta. Má þar nefna þátttaka í æskunni og hestinum sem og degi íslenska hestsins, útreiðartúrar, reiðtygjanámskeið, spilakvöld og leikjadagur.

Allir sem hafa áhuga á keppni keppa á mótum Sörla eða þar sem þau hafa unnið sér rétt til keppni.

Mörg námskeið eru í boði og var í vetur stofnaður skóli „Reiðmennskuæfingar hjá Hestamannafélaginu Sörla“ en markmið þess er að auka faglega þjálfun æskulýðsins.  Allir kennarar eru menntaðir reiðkennarar.

Hestamannafélagið Sörli – félagshesthús
Félagshesthúsið er ætlað börnum og unglingum sem vilja stunda hestamennsku þótt að foreldrarnir séu ekki hestafólk.  Þessi aðstaða er líka tilvalin fyrir grunnskólabörn sem kjósa hestamennsku sem valfag síðustu 2 árin í grunnskóla.

Börnin fá lánuð hross og reiðtygi og sinna hestunum nokkra daga í viku.  Um helgar koma foreldrar börnum sínum til aðstoðar og eiga þannig góðar samverustundir. Börnin fara á hestbak, fá kennslu og geta sótt reiðnámskeið.

Margir félagsmenn Sörla bjóða fram vinnu og tíma sinn til að hjálpa þessu unga fólki. 

Hestamannafélagið Sörli –  ný reiðhöll
Hestamannafélagið Sörli er frábært og öflugt félag, sem vantar aðstöðu til að bjóða upp á hestamennsku fyrir fatlaða og til að styðja betur við bakið á æskunni.  Ný reiðhöll mun uppfylla það sem vantar til að geta staðið undir nútímakröfur hvað varðar þjálfun hrossa sem og þjálfun og öryggi knapa.

Halldóra Einarsdóttir, félagsmaður í Hestamannafélaginu Sörli

Myndin sem fylgir sýnir 4 ættliði stunda sína íþrótt saman.  Allir ættliðir eru félagsmenn í Sörla nema langafinn, sem býr út á landi.