Búast má við að tveggja metra regla taki aftur gildi á höfuðborgarsvæðinu í fyrramálið samkvæmt nýjum tillögum sóttvarnalæknis. Grímuskylda verður hert, sundlaugum, leikhúsum, hárgreiðslustofum, rakarastofum og snyrtistofum lokað. Þá er fólk beðið um að halda sig heima við og ferðast ekki til og frá höfuðborgarsvæðinu.

Fjöldatakmarkanir verða áfram miðaðar við 20 manns, 30 í framhalds- og háskólum og 50 við jarðarfarir. Miðað er við 100 manns í verslunum og 200 í stærri verslunum. Mælst er til að íþróttamótum verði frestað og komið í veg fyrir hópamyndanir, s.s. meðal útiveru- og hreyfinga- og sönghópa. Þá verður veitingastöðum gert að loka klukkan 21 í stað 23. Skólastarf á leik- og grunnskólastigi helst óbreytt og treyst á sóttvarnaáherslur í hverjum skóla fyrir sig.

99 greindust með smit á Íslandi í gær, allir nema fimm á höfuðborgarsvæðinu. Yfir þrjú þúsund hafa nú greinst með kórónuveiruna hér á landi, 747 eru í einangrun, 3.571 í sóttkví og 15 á sjúkrahúsi. Þar af eru 4 á gjörgæslu og þrír þeirra í öndunarvél.