Tíu mega koma saman, í stað 20, samkvæmt nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra sem kynnt var á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í dag og tekur gildi á miðnætti. Áætlað er að þær gildi til og með 17. nóvember.

Allt íþróttastarf verður óheimilt, sem og sviðslistir. Undanþágur frá tíu manna samkomutakmörkunum verða gerðar í matvöruverslunum og lyfjaverslunum. Áfram gildir 2ja metra regla en aukin áhersla verður á grímunotkun.

Sundlaugum, krám og skemmtistöðum verður lokað um allt land og veitingastaðir þurfa að loka klukkan 21. Börn fædd 2015 og síðar verða undanþegin grímuskyldu og nálægðartakmörkunum.

Aðgerðirnar verða endurmetnar eftir aðstæðum með hliðsjón af því hvort hægt verði að aflétta þeim fyrr, eða hvort framlenging sé nauðsynleg. Reglugerðin byggir á minnisblaði Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis og reglurnar gilda á landinu öllu.

Mynd/skjáskot af fréttamannafundinum í dag. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðismálaráðherra og forgrunni og Alma Möller landlæknir í bakgrunni.