Víkingafélag Hafnfirðinga, Rimmugýgur, stendur í ströngu þessa dagana við undirbúning á hinni árlegu Víkingahátíð sem fram fer öðru sinni á Víðistaðatúni hér í Hafnarfirði, dagana 13.-17. júní. Á hátíðinni verða bardagasýningar, leikjasýningar, sögumenn, bogfimi, handverk, markaður og víkingaskóli barna, auk veitinga til sölu á svæðinu. Við kíktum í heimsókn í bækistöð víkinganna, í Húsinu við Staðarberg, og hittum þar formanninn Hafstein Kúld Pétursson og gjaldkerann Úlfar Daníelsson.  

Úlfar t.v. og Hafsteinn t.h.

Heilmikil saumaaðstaða er í Húsinu og sterkar saumavélar, enda er efnið sem unnið er með allt annað en þunnt silki.

Rimmugýgur er á höttunum eftir trjábolum og taka fagnandi á móti slíku ef einhverjir eru að fella tré úr görðum sínum.

Hvað ætli þetta tré hafi verið gamalt þegar það var hoggið?

„Hér opið og kaffi á könnunni og hingað kemur fólk að vinna eitthvað og spjalla. Þessi samkomustaður er svo góður og mikið notaður og aðstaðan er góð fyrir alls kyns handverk. Viðverudagur er á laugardögum og þá eru leiðbeinendur hér og krakkarnir leika sér í garðinum,“ segir Úlfar. Félgið hefur m.a. boðið upp á námskeið í litun og spjaldvefnaði. „Hér er ekki bara verið að berja mann og annan!“ bætir Hafsteinn við og hlær. Víkingahátíðin er algjörlega unnin af sjálfboðaliðum og segja félagarnir að tveir ungir menn, Jökull Tandri Ámundason og Haukur Hallsteinsson, séu búnir að undirbúa nýjungar í hálft ár sem muni líta dagsins ljós á Víðistaðatúni í júní. „Það er svakalegur eldmóður í þeim. Við Hafsteinn sjáum um tuðið og að fá innkomu. Það verður frítt inn á hátíðina og það er líka svo mikilvægt. Fyrirtæki mun sjá um veitingar og gefa okkur drykki og velvildin er víða og við komumst langt á henni,“ segir Úlfar.

Frá Víkingahátíðinni 2018.

Frá Víkingahátíðinni 2018.

Hafa margt fagfólk en vantar pípara
Hafsteinn bætir við að í raun vilji félagið fá þriggja ára styrktarsamning við Hafnarfjarðarbæ svo að hægt sé að tryggja að hátíðin sé ætíð vegleg. „Í ár er hátíðin frábreytt á þann hátt að hún verður stærri og það koma fleri gestir. Svo verður meira um tónlistaratriði, s.s. Dansk-íslenska hljómsveitin Kráka og Rimmugýgjafélagið.“ Einnig verði hátíðin tengd við Bæjarbíó á þann hátt að þar verður tónlistarfólk frá hátíðinni með tónleika. „Svo byrjum við fyrr, eða kl. 11, til að veita leikskólunum og leikjanámskeiðum í bænum möguleika á að koma. Hér sameinast kynslóðir,“ segir Úlfar og við sjáum um gæslu, þrif og allt saman. Rimmugýgur býr yfir mikla breidd af háskólamenntuðu fagfólki og iðnaðarfólki, en félagarnir segja að það vanti pípara. „Við dáumst að kraftinum í öllum sem taka þátt í þessu en við erum vissir um að það er vegna þess að þetta er svo gaman. Það er orðið svo ríkt í útlendingum að víkingar séu Íslendingar og það hafa svo margir áhuga á þessu.“

Myndir/OBÞ