Erlent par lét gefa sig saman í ljósdýrðinni í Hellisgerði snemma morguns 30. desember, áður en þær fóru í eftirminnilega brúðarmyndatöku á þekktum stöðum á Suðurlandi. Skipuleggjandi brúðkaupsins hjá fyrirtækinu Pink Iceland segir að ljósmyndarinn hafi fengið hugmyndina að byrja í Hellisgerði sem víglustað fyrir brúðkaupið, því hún lýsti því sem undralandi í myrkrinu .

„Það var rólegt í Hellisgerði þennan morgun og enginn átti leið hjá á meðan vígslan átti sér stað nema hinn huggulegast köttur sem stoppaði stutt við en gladdi viðstadda,“ segir Birna Hrönn Björnsdóttir hjá Pink Iceland, sem skipulagði brúðkaupið sem var framkvæmt af fulltrúa Siðmennt. „Ljósmyndarinn Kristín María Stefánsdóttir kom með hugmyndina að Hellisgerði sem víglustað því hún lýsti því sem undralandi í myrkrinu og það er alveg satt hjá henni.“

Dagurinn var tekinn snemma og Nína Kristjánsdóttir hárgreiðslumeistari og Helen Dögg förðunarfræðingur komu heim til verðandi brúðanna klukkan 6 um morguninn svo þær yrðu tilbúnar á tilsettum tíma. „Rúmlega 8 þennan fagra desembermorgun gifti Steinunn Anna frá Siðmennt þær undir stjörnuhimni,“ segir Birna og tekur sérstaklega fram hversu vel Hafnfirðingar tóku á móti þeim.

600 brúðkaup á 10 árum

Spurð segir Birna að Pink Iceland sé fyrirtæki sem vinnur að því að láta drauma fólks rætast; fólks sem dreymir um að ferðast til Íslands og gifta sig hér á landi. „Fyrirtækið verður 10 ára í febrúar sem er svaka áfangi og þó að róðurinn sé erfiður núna þá lítum við jákvæð fram á veginn og hlökkum til að taka á móti fleiri erlendum gestum þegar það er öruggara. Á þessum tíu árum sem við höfum verið til höfum við skipulag yfir 600 brúðkaup á Íslandi, hvert öðru skemmtilegra. Þetta brúðkaupið í Hellisgerði var það síðasta á árinu, og vorum við glöð og stolt að geta hjálpað þeim í þessu ástandi.“

Eftir athöfnina drifu þær hjónin sig ásamt ljósmyndara og keyrðu Suðurströndina þar sem deginum var varið í að taka brúðkaupsmyndir. Hægt er að sjá fjölda mynda frá þessu á Facebook síðu Pink Iceland.