Árlegar Gítarveislur Björns Thoroddsen hafa verið meðal vinsælustu tónlistarviðburða á landinu undanfarin 12 ár. Í ár heldur Björn hátíðina í gamla heimabæ sínum þar sem tónlistarferillinn hófst og engu verður til sparað. Viðburðurinn, Guitarama, fer fram í Bæjarbíói 2. nóvember. Hafnfirðingur hitti Björn og ræddi við hann, en í bígerð er ævisaga hans. 

Guitarama-gengið sem kemur fram á viðburðinum góða í Bæjarbíói.
Birni þykir afar vænt um æskuslóðirnar í miðbæ Hafnarfjarðar, gengur þær oft og rifjar upp minningar. Hér er hann fyrir utan æskuheimili sitt við Holtsgötu 12. Mynd/OBÞ

„Ég hef verið með þessar gítarveislur í 12 ár með einvala mannskap og ákvað að undirlagi nokkurra góðra Hafnfirðinga að gera eitthvað mikið úr slíkum viðburði í ár í heimabænum. Núna verð ég aðal númerið, á 50 ára tónlistarafmæli mínu. Það er heilmikil áskorun,“ segir Björn og hlær. „Ég verð studdur af hljómsveitinni minni, sem skipuð er Unni Birnu Bassadóttur, Sigurgeir Skafta og Skúla Gíslasyni. Þau eru alveg stórkostlegt tónlistarfólk. Unnur Birna er ein af flottustu tónlistamönnum sem ég hef unnið með. Hún spilaði með Jethro Tull í 10 ár og mér finnst ég vera núna komin hálfur í það band.“ Gestir á sviðinu verða Krummi Björgvinsson, Stefán Hjörleifsson, Andrés Þór Gunnlaugsson, Gunnar Þór Jónsson og Pétur Valgarð Pétursson.

Björn ásamt Björgvini Halldórssyni og hljómsveit í Flensborg. Mynd aðsend.
Björn og Björgvin í USSR. Mynd aðsend.

Var feiminn unglingur
Á viðburðinum mun Björn rifja upp margt skondið og skemmtilegt frá upphafi ferlis síns og segja frá ýmsu sem hafði mótandi áhrif á hann sem listamann. „Ég flutti 14 ára úr Hafnarfirði og var ósáttur við það og fór stundum tvisvar á dag í bláa Hafnarfjarðarstrætó, með horið lekandi í Heklu úlpunni, til að hitta vini mína. Ég var svakalega feiminn unglingur og reyndi að forðast að vera tekinn fyrir. Var mjög hár eftir aldri og var kallaður Stóri. Feimnin byrjaði þannig. Ég fylgdist bara með hinum og lét lítið fyrir mér fara. Á þessum tíma voru engar greiningar. Annað hvort varstu skrýtinn eða í lagi. Engin vildi vera skrýtinn,“ segir Björn og rifjar í því sambandi upp að hann hafi loksins sigrast á feimninni þegar hann dvaldi í Bandaríkjunum fyrir um 20 árum við spilamennsku. „Þá var ekkert annað í boði en að vera áberandi til að ná árangri. Gefa allt í það. Ég hafði svakalega gott af því.“

Björn og Björgvin „nokkrum“ árum síðar. Mynd aðsend.

Ævisaga í vinnslu
Gamall vinur Björns og Hafnfirðingur, Halldór Árni Sveinsson, skrifar um þessar mundir ævisögu Björns. „Dóri var bestur í verkið. Minnið hans er ótrúlegt og við erum búnir að fara víða um bæinn, rifja upp og taka viðtöl. Hann ætlaði að sjá um Hafnarfjarðar-fókusinn í bókinni en svo verður hún meira og minna um Hafnarfjörð því þessi 14 ár sem ég bjó hér mótuðum mig mest. Heimurinn var Hafnarfjörður. Bærinn á mikið í mér og ég í honum.“ Björn bætir við að margt sé að minnast sem hann muni rifja upp á sviðinu í Bæjarbíói. „Til dæmis þegar ég kynntist Björgvini Halldórssyni og spilaði með honum. Ég mun segja margar sögur af Bjögga. Og Jonna Garðars og Pétri Stephensen og fleirum sem spiluðu með mér á dansæfingum í Flensborg. Það verður eitthvað!“

Hér er slóð á viðburðinn á Facebook.

Myndir af Birni fyrir utan æskuheimili hans að Holtsgötu 12/OBÞ.