Það er ýmislegt í bígerð þegar kemur að búsetumálum fyrir fatlað fólk hér í Hafnarfirði og því ber að fagna.

Arnarhraun og Öldugata

Á Arnarhrauni 50 er að rísa íbúðarkjarni með 6 íbúðum og munu fyrstu íbúarnir flytja inn í ágúst. Verið er að ganga frá ráðningu á forstöðumanni þessa dagana sem fer í það að skipuleggja starfið. Verðandi íbúar eru allir á biðlista eftir húsnæði og því verður afar kærkomið fyrir þá að geta loksins flutt á eigið heimili.

Haustið 2019 var tekin fyrsta skóflustungan að íbúðarkjarna með 6 íbúðum við Öldugötu 45. Gert er ráð fyrir að fyrstu íbúarnir flytji inn seinni hluta næsta árs. Fjórir af verðandi íbúum eru nú búsettir í Einibergi en þar er herbergjasambýli en því verður lokað um leið og íbúðarkjarninn að Öldugötu opnar. Tveir af þessum íbúum koma af biðlista.

Vinabær og nýtt úrræði á Kjalarnesi

Á síðasta ári var undirritaður samningur við foreldra 6 fatlaðra einstaklinga um byggingu og rekstur íbúðakjarna að Stuðlaskarði 2. Íbúðakjarninn hefur fengið heitið Vinabær. Foreldrar eru með aðstoð Þroskahjálpar að sækja um stofnframlög til framkvæmdarinnar. Samningurinn á sér engin fordæmi því foreldrar munu sjá um byggingarframkvæmd og skipulag reksturs með stuðningi Þroskahjálpar en Hafnarfjarðarbær mun greiða Vinabæ þá upphæð sem þarf til reksturs slíks íbúðarkjarna.

Haustið 2021 munu tveir einstaklingar flytjast í nýjan íbúðarkjarna sem fyrirhugað er að byggja á Kjalarnesi. Íbúðarkjarninn er samstarfsverkefni Hafnarfjarðar, Reykjavíkur og Mosfellsbæjar.

Auk þessa hefur verið lögð áhersla á að úthluta fötluðu fólki sem hefur þörf fyrir þjónustu íbúðir í félagslega húsnæðiskerfi Hafnarfjarðar. Þar er lögð er áhersla á að styðja fatlað fólk til að lifa sjálfstæðu lífi á eigin heimili .

Að lokum

Það verða margir sem komast af biðlistanum vegna þessara framkvæmda og er það mikið gleðiefni. En því miður er það samt enn svo að það eru einstaklingar á biðlista eftir húsnæði.

Ég mun beita mér áfram í því ásamt félögum mínum í fjölskylduráði og starfsmönnum á fjölskyldu- og barnamálasviði að stytta biðlista enn frekar. Það er forgangsmál enda skiptir það hvern einstakling öllu máli að búa á eigin heimili.

Valdimar Víðisson, formaður fjölskyldráðs Hafnarfjarðar.