Á furðulegum tímum samkomubanns grípa mörg íþróttafélög til ýmissa ráða til að hvetja iðkendur til að æfa sig heima. Hafnfirðingur fékk meðfylgjandi myndband sent frá Fimleikafélagi Hafnarfjarðar, en þar hvetur Árni Freyr Guðnason, yfirþjálfari yngri flokka í knttspyrnu hjá félaginu, krakkana til að æfa sig heima. Stjórn FH bætti um betur og duglegustu krakkarnir geta nú átt von á vinningum.
Tækniæfingar eru settar inn á Instagram reikninginn fhfotbolti_yngriflokkar daglega og bæði styrktar- og tækniæfingar munu koma bráðlega inn á sportabler. Árni Freyr hefur mikla trú á heimaæfingum og segir spennandi verði að sjá hver hafa tekið mestu framförum þegar æfingar hefjast á ný.

Í samtali við Hafnfirðing segir Arnar Ægisson, varaformaður stjórnar FH, að ákveðið hafi verið að setja í gang áskorun á hverjum degi og leik, þar sem iðkendur eiga kost á að vinna m.a. Bose hátalara, gjafabréf í HVerslun eða Meistaradeildarbolta frá Músik og Sport og fleirum, með því að merkja með myllumerkinu #fhfotbolti_yngriflokkar. „Við vekjum þannig athygli á hafnfirskum fyrirtækjum í leiðinni. Og svo eru það Hafnfirðingar sem samþykktu fyrir hönd Origo og Nike að vera með,“ segir Arnar kátur.

