Matti Ósvald er heildrænn heilsufræðingur, vottaður markþjálfi frá ICF og PCC-markþjálfi hjá fyrirtækinu Profectus. Hann deilir hér með okkur góðum ráðum inn í nýtt ár.

Hvílíkt ár! Síðasta ár var mjög sérstakt og reyndi mjög mikið á og jafnvel meira en við áttum okkur ár. Meiri streita og óvissa. Það er algengt um áramót að við viljum breyta einhverju, uppfæra líf okkar og mig langar að deila nokkrum punktum með ykkur varðandi það að setja sér markmið og hvað það felur í sér þegar við ætlum í raun að breyta einhverju.

Taka út „á að“-veikina

Það er mjög mikilvægt áður en farið er af stað hvort löngunin sé í raun okkar sjálfra. Eða er einhver annar búinn að koma inn hugmyndum hjá okkur um að verða öðruvísi? Fyrsta sem þarf að taka út er „á að“-veikin: „Ég ætti að vera svona eða gera svona.“ Hver er það sem segir að við þurfum að eiga nýjasta símann, flatskjá eða hvernig við eigum að líta út eða form sem við eigum að vera í? Það er fullt af hlutum í kringum okkur sem hafa áhrif á hvernig við lifum og við þurfum að byrja á því að kippa því úr umferð og spyrja okkur: „Hvað langar mig?“ Þar hefst það. Hvort sem það snýst um heilsu, vinnu, nám, fjármál, hjónaband, samband eða hvað sem er, þá verðum við að setjast niður með sjálfum okkur, spyrja okkur og hlusta á okkur sjálf hverju við viljum breyta. Hver er löngun okkar? Þegar búið er að finna út úr því þá þarf að breyta lönguninni í sýn. Hvernig verður þetta ef það tekst mjög vel? Hvernig líður okkur þá? Er það þess virði, þegar við upplifum það fram í tímann? 

Fáum tilfinningu fyrir áfangastaðnum

Þá erum við komin með sýn og sýnin er áfangastaðurinn sem hjálpar okkur við að finna leiðina. Ef staðurinn er óskýr og bara löngun, þá er engin leið að finna réttu skrefin. Þá er það bara löngun og ekkert meira. Margir hugsa að þá langar á betri stað, jafnvel gera meira eða minna af einhverju. Um leið og maður við segjum t.d. Akureyri eða Siglufjörður, þá fyrst getum við stúderað hvaða leið er best að keyra, því það eru áfangastaðir. Sama á við um sýnir. Hvernig líður okkur svo ef við sjáum fyrir okkur að við náum markmiðunum mjög vel? Það er tilfinningin í sýninni sem býr til skriðþungann sem við þurfum til að ná alla leið. Og kemur okkur í gegnum hindranir. Fólk sem nær mestum árangri er fólkið sem hefur fengið snert af tilfinningunni fyrir áfangastaðnum. Það ætlar ekki að gefa það eftir. 

Spyrja, hlusta á og virða okkur

Hvað hindrar okkur helst í að gera þetta? Við erum oft með, eins og ein góð vinkona mín kallaði það, gamalt backup-forrit í huganum sem hindrar okkur og truflar, jafnvel áður en við byrjum. Það segir okkur jafnvel að hætta við. Þá eigum að fá hjálp við að uppfæra harða diskinn, setja inn nýja hluti sem henta okkur betur sem þær manneskjur sem við erum í dag og nota styrkleikana til að halda áfram. Við þurfum að vita hver við erum innst inni og sækja löngunina þangað. Það getur alveg verið erfitt að átta sig á því að vilja ekki lengur vera á einhverjum stað. Það að hlusta á sig krefst nefnilega mikillar sjálfsvirðingar. Að spyrja, hlusta og virða svörin. 

Það er fátt sem breytir eins miklu í því að lifa örlítið betur eins og okkur langar, en heilbrigð sjálfsvirðing og sjálfsvæntumþykja. Því annars sækjum við til annarra sem við getum fengið hjá okkur sjálfum. Það tefur mjög mikið að bíða eftir einhverju frá öðrum sem kemur sjaldnast, s.s. virðing, ást, trú á sér og finna að við getum fengið þetta allt hjá sjálfum okkur. 


Mynd/OBÞ