Eygló Hauksdóttir hefur starfað hjá Hafnarfjarðarbæ frá árinu 1977, í tíð 12 bæjarstjóra. Hún verður sjötug í apríl og viðurkennir að þykja einkennileg tilhugsun að hætta á tímum samkomubanns en lítur afar þakklát yfir farinn veg og hefur engar áhyggjur af eirðarleysi þegar hún lýkur störfum í þessum mánuði.

Eygló var upphaflega ráðin sem ritari fyrir alla starfsemi bæjarins, sem þá var töluvert minni í sniðum en í dag. „Ég sá m.a. um að vélrita allar fundargerðir og skrifa öll bréf fyrir bæjarstjórann, félagsmálastofnunina og allar stofnanir bæjarins. Þetta var á könnu einnar manneskju á þeim tíma,“ rifjar Eygló upp og bætir við að fyrsta starfsstöð hennar hafi verið ekki svo langt frá þar sem hún er í dag, á 2. hæð í ráðhúsinu við Strandgötu. Eygló hafði lært vélritun og var ráðin inn af bæjarstjórn vegna þess að hún þótti einmitt góður vélritari. Hún sinnti starfi ritara í þrjú ár, þar til starf aðstoðargjaldkera bæjarins losnaði og hún sótti um og fékk það. Á þeim tíma voru þrír gjaldkerar hjá bænum afgreiðslugjaldkeri, aðalgjaldkeri og bæjargjaldkeri.

Ráðhús Hafnarfjarðar um 1950. Mynd af vefsíðu Bæjarbíós, en hægri hluti hússins hefur hýst þetta elsta bíóhús landsins frá árinu 1945.

Góð tilfinning að finna hvernig kynjahlutverk hafa breyst

Skömmu eftir að Eygló tók við starfi aðstoðargjaldkera hætti aðalgjaldkeri fyrir aldurs sakir. Eygló sótti um og fékk það starf. Aðalgjaldkeri leysti bæjargjaldkera af, sem m.a. tók á móti greiðslum á öllum gjöldum, eins og fasteignagjöldum þar sem allar kvittanir voru handskrifaðar. Á þeim tíma fékk fólk útborgað í peningum og ávísunum og greiddi gjöldin með þeim. „Ég var í þessu starfi til 1985, þegar bærinn stofnaði gjaldheimtu við Suðurgötu 14 sem tók að sér að innheimta þinggjöld og önnur gjöld fyrir sýslumann. Ég fór þangað yfir sem gjaldkeri og var starfsheitinu breytt í aðstoðar-gjaldheimtustjóri. Einnig leysti ég bæjargjaldkerann af í ráðhúsinu við Strandgötu og hljóp á milli staða, leysti þá báða af og sinnti einnig mínu starfi,“ segir Eygló og segir það hafa gengið vel upp. Það hafi ekki verið yfir neinu að kvarta. Hún segir að það sé góð tilfinning að finna hvernig kynjahlutverk hafa breyst í tímans rás.

Eygló á starfsstöðinni sinni í ráhúsi Hafnarfjarðar.

Miklar breytingar á mörgum árum
Gjaldheimtan var síðan lögð niður 1991 og starfstöð Eyglóar aftur komin í ráðhúsið „Um það leyti var hún  beðin að taka að sér starf bæjargjaldkera sem hún hafði leyst af í einhver ár og í framhaldinu beðin um að setja á stofn innheimtudeild sem heitir í dag fjárreiðudeild og er Eygló deildarstjóri hennar.“ Eygló var fyrst og fremst bæjargjaldkeri í grunninn og sá um að greiða allt fyrir bæinn og stofnanir hans, einnig hafnarsjóðinn og að skrifa ávísanir fyrir verktaka sem biðu í röð eftir greiðslum á föstudögum. Aðspurð segist Eygló vera mjög ánægð í starfi og að hún hefði ekki tórað svona lengi annars. „Ég hef líka unnið með mjög góðu fólki, þar af 12 bæjarstjórum og einum tvisvar. Það hafa verið miklar breytingar á öllum þessum árum, frá vélrituðum bréfum og stenslum, þar sem þurfti m.a. að passa vel að forðast villur.“ 

„Alltaf verið góður andi hér“

Aðspurð segist Eygló sannarlega ekki ætla að sitja auðum höndum að starfi loknu. Henni finnst dálítið einkennilegt að hætta störfum í ástandi eins og það er núna. „Ég ætlaði að fara til útlanda þetta vorið en dró að panta en svo varð ekkert úr því. Ég ætla að sjá til hvernig allt æxlast og hef í raun ekki haft tíma til að hugsa um hvað ég ætla að gera og ég ætla ekkert að plana neitt fyrir fram. Ég hef engar áhyggjur af því að hafa ekki nóg fyrir stafni. Ég er fyrst og fremst þakklát í hjarta mér fyrir þessa áratugi hjá bænum og það hafa verið forréttindi að hafa starfað með og þekkt allt þetta góða fólk. Ég er mjög hamingjusöm með þetta. Það er mjög góður andi hérna og hefur alltaf verið,“ segir Eygló að lokum. 

Þessu umfjöllun er samstarf.
Myndir/Olga Björt og Hafnarfjarðarbær.