Sara Rós Jakobsdóttir, dansari úr Dansíþróttafélagi Hafnarfjarðar, er íþróttakona Hafnarfjarðar árið 2018. Sara Rós er margfaldur Íslands- og bikarmeistari í standard, latin og 10 dönsum á árinu. Hún keppir fyrir landslið Dansíþróttasambands Íslands ásamt dansfélaga sínum og tóku þau þátt í fjölda alþjóðlegra móta víðsvegar um heiminn með góðum árangri. Þau náðu 6. sæti í úrlistakeppni Evrópumeistaramótsins í 10 dönsum.

„Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá bjóst ég alls ekki við að hljóta þennan titil. Alls ekki vegna þess að mér fannst ég ekki eiga hann skilið, heldur vegna þess að ég er orðin svo vön því að dansíþróttin fái litla athygli á Íslandi og margir líta á iðkunina frekar sem “hobby” sem er einfalt og til skemmtunar. Mér finnst það því frábært að veitt sé athygli árangrinum sem að við náðum á liðnu ári á Evrópumeistaramótinu í 10 dönsum, og finnst það mikil viðurkenning að honum sé veitt athygli og viðurkennt sem jafn mikilvægur og góður árangur og í öðrum íþróttum.“

Við verðlaunaafhendinguna.

Sara Rós segist vona innilega að titillinn veki meiri athygli á dansíþróttinni og frábæra starfinu sem að DÍH er að vinna. „Dansíþróttinn er svo falleg og tignarleg og hef ég verið algjörlega ástfangin af henni frá því ég byrjaði. Ég hef verið hjá DÍH frá byrjun og þykir svo vænt um félagið og óska þess mest að sjá það stækka og fá stærra og betra húsnæði svo aðstaðan verði betri fyrir iðkendur, en það myndi hjálpa DÍH að stækka enn meira og sinna sínu starfi eins og það ætti að vera. Ég tók eftir því eftir að ég flutti til Árósa árið 2016 hversu mikilvægt það var að komast í boðlega æfingaðstöðu fyrir pör sem að keppa á heimsmælikvarða.“

Sara Rós og dansfélagi hennar, Nicolò Barbizi.

Aðspurð segist Sara Rós vera með ótal mörg markmið sem að hana langar að ná, en aðal markmiðið sé að vinna markvisst að því að fá Evrópu- og Heimsmeistaratitilinn í 10 dönsum á næstu árum. „Þetta árið stefnum við því á að færa okkur ofar í úrslitunum, en við komumst í fyrst íslenskra para í úrslit á Evrópumeistaramóti í 10 dönsum árið 2018. Til að ná þeim markmiðum vil ég þó ekki einblína á úrslitin, heldur á að ná sem bestum árangri á æfingum og að ná markvissum framförum sem dansari. Það besta sem að ég get gert á keppnisgólfinu er að dansa vel því að engu öðru get ég stjórnað, og er því markmiðið að verða sem bestur dansari og að einblína alltaf á sjálfan mig. Markmiðið mitt sem fyrirmynd fyrir aðra dansara og íþróttamenn, er að sýna fordæmi með mínum eigin gjörðum á keppnum sem og æfingum.  Mér finnst mikilvægt að sýna fordæmi í vinnusemi á æfingum, því að árangur næst með endurtekningum, reglusemi og viljastyrk.“

Sara Rós í einum af fjölmörgum glæsilegum kjólum sem hún keppir í.

„Aldrei gefast upp!“

Sara Rós byrjaði að æfa dans þegar hún var 7 ára gömul í Dansskóla Auðar Haralds, en hún færði sig svo árið 2000 í Dansíþróttafélag Hafnarfjarðar þar sem hún heurf verið alla tíð. „Ég er því búin að æfa dans í 20 ár seinna á þessu ári og er hvergi nærri hætt. Það sem mig langar að segja við þá sem dreyma um að ná á toppinn: Aldrei hætta að trúa á sjálfan þig og getu þína. Það er allt mögulegt ef viljinn er fyrir hendi, og í alvörunni það er mögulegt. Viljastyrkur og trú er það fyrsta sem þarf, og það síðasta sem heldur þér gangandi alla leið. Úrslit á danskeppnum geta farið upp og niður og manni finnist það ekki alltaf sanngjarnt, en þeir sem standa eftir efstir, eru þeir sem eru trúir sjálfum sér og leiðast ekki af sinni braut á erfiðum tímum. Aldrei gefast upp!“

 

Mynd frá verðlaunaafhendingu/OBÞ

Aðrar myndir frá DÍH og Fsacebook síðu Söru Rósar.