Arna Rún Skúladóttir var dúx Flensborgarskólans síðasta misseri, þegar 79 stúdentar brautskráðust við óvenjulegar aðstæður vegna COVID-19 í maílok. Arna Rún útskrifaðist af raunvísindabraut, enda liggja áhugasvið hennar í þess konar vísindum og hún stefnir í læknisfræði.

„Raunvísindi eru áhugasvið mín allan daginn! Ég er góð með tölur og mér finnst heillandi hvernig hlutirnir virka; hvernig vistkerfin virka, líkaminn, allar lífverur og lífheimurinn. Einnig eðlisfræði þótt hún sé kannski síst þessara faga,“ segir Arna Rún og bætir við að hún hafi alltaf átt auðveldara með þessi fög en t.d. íslensku, lesskilning eða önnur hugvísindi. Hún tók, eins og flestir aðrir, stúdentsprófið á þremur árum, en hefði alveg viljað hafa fjögur ár til þess. „Ég átti alls ekki alltaf auðvelt með námið, það fór eftir fögum, en ég hefði viljað að kerfið væri 4 ár og hægt væri að taka námið á 3 árum ef það hentar. Það eru sumir áfangar sem slepptu til að geta stytt námið og ég hefði gjarnan viljað taka suma af þeim áföngum og hafa álagið minna.“
Starfar við aðhlynningu í sumar
Arna Rún segir þó standa upp úr hversu skemmtilegt námið var oft að hún eignaðist mjög góða vini í skólanum. „Þetta er góður skóli og fínir kennarar. Ég var aðeins í kórnum og skráði mig í leiklistaráfanga. Svo var ég mikið í Ungmennaráði ungmennahúsa Samfés, fór í utanlandsferðir tengdar því, og mun líklega halda því áfram, enda er það fyrir ungt fólk frá 16-25 ára.“ Í sumar mun Arna Rún starfa við aðhlynningu á Hrafnistu og ferðast um landið. „Ég er heppin að hafa fengið vinnu og stefni á læknanám í háskóla. Ég horfði alltaf mikið til skurðlækninga, en núna langar mig bara að kynnast grunninum og sjá svo hvað heillar,“ segir Arna Rún og lýkur viðtalinu með mottói: „Ekki gefast upp, þetta tekst allt ef viljinn er fyrir hendi!“