Viktoría Buzukina hefur í eitt ár verið með vinnustofu í Íshúsi Hafnarfjarðar við Strandgötu 90. Árið í ár var Viktoríu óvenju viðburðaríkt og uppskerusamt. Hún vann allar myndskreytingar fyrir vefsíðuna Ísland.is og einnig fyrir almannavarnir í tengslum við covid19. Þá gaf út sína fyrstu bók, Ugla eignast vin, og vann allar myndskreytingar í bókinni Gervilimrur Gísla Rúnars. Við ræddum við Viktoríu.  

Viktoría og Gísli Rúnar á góðri stundu í vinnuaðstöðu hennar í Íshúsinu. Mynd í eigu hennar.

„Þetta var síðasta verk Gísla Rúnars Jónssonar og fyrsta bókin mín. Við unnum saman að bókinni í nærri ár, en Gísli var búinn að sinna limrusmíðunum lengi og vildi gefa þær út löngu áður en við hittumst. Þessi bók er einstök og fyndin. Fyrir mér eru þetta nærri 500 blaðsíður af minningum, þar sem við sátum saman yfir hverri síðu og ræddum,“ segir Viktoría og bætir við að hún vildi óska þess að hún hefði getað fagnað útgáfunni með honum og faðmað hann, en útgáfuhófið fór fram fyrir skömmu í Gaflaraleikhúsinu í beinni útsendingu á Facebook. „Útgáfuhófið var mjög skemmtilegt, fullt af ást og góðum minningum, og þetta var mikill heiður að deila þessari stund með fjölskyldu hans og vinum. Ég er svo ánægð með að hafa hitt Gísla Rúnar og unnið með honum. Þetta var einn færasti maður í íslensku tungumáli og ég, aðflutti Íslendingurinn, gat skilið hans sýn, blaðsíðu eftir blaðsíðu.“

Bók Gísla Rúnars, Gervilimrur Gísla Rúnars, er sannkallað meistaraverk, frá A-Ö.

Eigin bók og grafík fyrir almannavarnir

Rétt eftir að bók Gísla Rúnars kom út gaf Viktoría einnig út sína fyrstu frumsömdu bók, Ugla eignast vin, að sjálfsögðu með teikningum eftir hana sjálfa. Þá fékk Viktoría einnig það verkefni að útbúa teikningar fyrir þjóðarátak almannavarna vegna kórónuveirunnar í samstarfi við Hvíta húsið auglýsingastofu og fyrir Ísland.is í samstarfi við Kosmós&Kaos. Landsmenn ættu að vera farnir að kannast vel við mörg verka Viktoríu. Hún er enn kölluð til ef ný tákn vantar.

Grafíkin covid.is, sem er á vegum almannavarna.

Gat ekki hugsað sér að læra dans né tónlist

Viktoría ákvað 7 ára að verða listamaður en finnst samt fyndið að hún hafi valið myndlist því móðir hennar spurði hvort hún vildi ekki læra tónlist. „Strax þá gat ég ekki hugsað mér að læra nótur og spila sömu lögin aftur og aftur. Og ég vildi heldur ekki fara í dansskóla, því þar þyrfti ég að læra einhverjar hreyfingar og endurtaka þær,“ segir Viktoría og brosir kankvís. Mamma spurði hana þá í hvaða skóla hún hefði áhuga á að fara eftir venjulegan skóladag, því á Krímskaga, þar sem Viktoría ólst upp, er nám dálítið öðruvísi en á Íslandi. „Þar eru engin myndlistarnámskeið, en myndlistarskólar eru í raun fullt nám fyrir krakka og eru þrisvar í viku. Ég byrjaði þar strax 7 ára og útskrifaðist þegar ég var 16 ára. Kennslan gekk út á teikningu, málun, leir, listasögu, myndbyggingu, textíl. Ég sá þegar leið á námið að ég hafði bara ekki áhuga á að gera sífellt eitthvað eins og sá að í myndlist væri eitthvað fjölbreytt og skemmtilegt. Og þar er ég enn og er mjög ánægð.“

Hluti af vefsíðunni Ísland.is., en Viktoría sá um myndskreytingar.

Flutti frá Krímskaga til Íslands 2010

Á grunnskólaárum Viktoríu réði faðir hennar sig til starfa á bóndabæ á Íslandi. „Hann vann hjá yndislegu fólki sem eru núna okkar bestu vinir. Ég og mömmu komum hingað  í fyrsta skipti til pabba um jólin 1998, þegar ég 11 ára. Ég varð strax svo ástfangin af fegurð landsins og mig langaði ekki aftur heim Krímskaga. Ég sagði foreldrum að ég skyldi að fela mig í heyinu í fjósinu ti þess að missa af fluginu heim,“ segir Viktoría og hlær. Þau ákváðu síðan að rétti tíminn til að flytja alfarið til Íslands yrði þegar Viktoría lyki grunnskóla. „Svo bara gerðist margt í heiminum, alls kyns ástæður, sem töfðu fyrir, en ég hafði það alltaf að markmiði að flytja til Íslands og vera hjá bæði mömmu og pabba. Og það varð að raunveruleika sumarið 2010.“

Viktoría með fyrstu eigin bók, Ugla eignast vin. Mynd í eigu Viktoríu.

Hefur lært margs konar tækni í myndlist 

Á árunum 2004 – 2008 stundaði Viktoría BA nám í innan- og utanhússhönnun í National University of Culture and Arts, í borginni Kiev í Úkraínu og á Íslandi grafíska hönnun í Listaháskóla Íslands, á árunum 2010 – 2013. „Um þessar mundir vinnur Viktoría mikið stafrænar teikningar og það er aðal vinnan hennar, ásamt því að mála með vatnslitum. „Ég er svo heppin að geta lært margs konar tækni í myndlist og hef alltaf haft mögulega á að velja hvað og hvernig vil ég teikna/mála og jafnvel blanda tækni saman við og prófa eitthvað nýtt, sérstaklega þegar um er að ræða myndskreytingar.“ Viktoría er með vinnuaðstöðu í Íshúsi Hafnarfjarðar og kann afar vel við sig þar, innan um skapandi fólk. Hún situr ekki auðum höndum, enda nóg að gera og vinnutíminn oft langur, en að hennar sögn alltaf skemmtilegur. 

Ein af vatnslitamyndum VIktoríu.

Instagram síða Viktoríu.

Forsíðumynd/OBÞ