Hafrannsóknarstofnun (Hafró) flutti formlega dag í nýtt 5000 fermetra húsnæði í Fornubúðum hér í Hafnarfirði. Rannsóknarskipum Hafró var siglt frá Reykjavíkurhöfn til Hafnarfjarðarhafnar í dag, ásamt starfsfólki Hafró, Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, Kristjáni Þór Júlíussyni sjávarútvegsráðherra, Sigurði Guðjónssyni forstjóra Hafró, fréttamönnum og fleirum. Á Háabakka beið þeirra svo formleg opnunarhátíð, þar sem Jón Rúnar Halldórsson, framkvæmdastjóri Fornubúða fasteignafélags, afhenti formlega lyklavöldin að húsinu.

Hafró hafði verið til húsa við Skúlagötu 4 síðan árið 1965 (gamla útvarpshúsinu) í miðborg Reykjavíkur. Starfsfólk Hafró gekk fylktu liði frá Skúlagötu og að Reykjavíkurhöfn klukkan 13 í dag og um borð í Bjarna Sæmundsson og Árna Friðriksson, rannsóknarskip Hafró.

Á Háabakka tók bæjarstjórn Hafnarfjarðar og hópur sérboðinna gesta á móti skipunum og farþegum. Lúðrasveit Hafnarfjarðar lék hátíðleg lög og Karlakórinn Þrestir söng undurblítt. Að endingu fór mannskapurinn inn í nýja húsnæðið til að skoða það, njóta léttra veitinga og hlýða á undurljúfa tóna Jóns Jónssonar tónlistarmanns.

Fornubúðir verða opnar almenningi á sjómannadaginn n.k. sunnudag.

Nánar verður fjallað um opnunarhátíðina í næsta tölublaði Hafnfirðings.
Myndir/OBÞ og Eva Ágústa

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar.