Í himinbláu, 130 ára gömlu húsi við Laugaveg 12b í Reykjavík rekur Hafnfirðingurinn Ragnhildur Jóhanns verslunina Hjarta Reykjavíkur, ásamt manni sínum Jóhanni Ludwig Torfasyni sem undanfarin ár hefur einbeitt sér að teikningum húsa í miðborg Reykjavíkur. Þau kynntust í Listaháskóla Íslands þar sem hún stundaði nám í myndlist og hann kenndi þar myndlist í 13 ár. Listagyðjan bankaði snemma upp á hjá Ragnhildi sem var sí-teiknandi og málandi á æskuheimilum í Hafnarfirði. Þessar sterku hafnfirsku rætur höfðu mikið með það að gera að nýverið bættust 25 falleg hafnfirsk hús í flóru næstum 400 húsateikninga, sem eru afar vinsæl hönnun Jóhanns og helsta söluvara verslunarinnar.


Verslunina Hjarta Reykjavíkur stofnuðu Ragnhildur og Jóhann fyrir tveimur árum, þegar seinni bók hans „Kæri Laugavegur“ kom út, sem eru teikningar hans af 210 byggingum Laugavegar. Fyrri bókin „The Heart of Reykjavík“ er í sama dúr, nema teikningarnar eru af húsum víða um borgina. Í raun varð því reksturinn til utan um tvær bækur en það var allt mjög meðvitað hjá þeim hjónum. Síðan þá hefur vöruúrvalið þróast og aukist í takti við eftirspurn og sköpunargleði. „Við prentum teikningarnar á málmplötur, plaköt, bolla, bakka og glasamottur. Skalinn er mikill og því hægt að prenta í ýmsum stærðum. Og púsl! Púslin eru svakalega vinsæl og mikið keypt. Fólk safnar þeim. Við seldum þau í bílförmum á covid tímum,“ segir Ragnhildur.
Fóru rúnt um Hafnarfjörð með myndavél


Aðspurður segist Jóhann einnig teikna eftir pöntunum og mörg slík sérverkefni hafi orðið til þegar heimsfaraldurinn skall á. „Þá bæði teikna ég hús eftir pöntunum og þau bætast í sístækkandi handteiknaða húsaflokkinn minn. Það dettur alltaf hér inn fólk sem biður um teikningar af húsum víða á landinu. Því þótti okkur nærtækast að taka Hafnarfjörðinn næst því Ragnhildur er þaðan.“ Þau fóru rúnt með myndavél og Hafnfirðingurinn Ragnhildur stýrði því vitaskuld hvaða hús yrðu fyrir valinu. Vitinn varð auðvitað númer eitt á listanum! En valið var að mestu leyti bundið við miðbæinn. Teknar voru nákvæmar myndir af áferð, skuggum, gluggakörmum, hurðahúnum og öllu saman. „Þetta er heilmikill en skemmtilegur undirbúningur. Þegar ég gerði Laugavegsbókina þá leit ég varla upp frá teiknivinnunni vikum og mánuðum saman. Ég ber líka mikla virðingu fyrir húsunum, bæði höfundum þeirra og hvernig eigendur hafa kosið liti og annað og hef þau mjög raunsæ. Svo getur framsetningin verið allskonar. Hafnfirska útgáfan núna eru 25 byggingar settar saman í eina mynd og sömuleiðis gerð útgáfa á kaffikrús. Svo er vitaskuld hægt að fá prentun með einu tilteknu húsi eða sérpöntun á húsi sem ekki hefur verið teiknað.“

Sérkenni gamla tímans og framleiðsla á staðnum
Langmest af vörunum eru handgerðar og framleiddar á staðnum því verslunin er einnig vinnustofa og verkstæði. „Hluti af því að vera með svona litla verksmiðju er að vísa í gamla tímann þegar t.d. þekktar verslanir eins og Vinnufatabúðin var ekki bara búð, heldur framleiddi líka fatnaðinn. Við viljum halda í slík sérkenni hér og að eigendurnir séu við afgreiðsluborðið,“ leggur Jóhann áherslu á. „Við erum alltaf saman og erum góð í að vinna saman,“ bætir Ragnhildur við og brosir. Þau deila sannarlega áhuga á myndlist og segjast leita álits hjá hvort öðru en hafi hins vegar lítið unnið saman að verkefnum. „Ef það hefur gerst þá höfum við klórað okkur í höfðinu og hlegið,“ segir hún og skellihlær. Jóhann rifjar þá upp að þau hafi nú einu sinni verið saman með verk – á sýningunni „Pör í íslenskri myndlist“ í 002 Gallerý í Hafnarfirði um árið. „Hér í versluninni höfum við einnig sýningarrými með okkar verkum og annarra og sýningar hér eru gríðarlega vel sóttar. Oftast er um einkasýningar að ræða, einn mánuð í einu, þar sem rýmið er leigt,“ segir Ragnhildur. Sjálf á hún þar þónokkur verk sem hafa sterka femíníska og erótíska skírskotun. „Þetta er svona blanda af málverkum, úrklippum úr gömlum dagblöðum og tímaritum og alltaf einhvers konar texti. Konan, kvenleiki og femínismi.“
Sú eina listræna í fjölskyldunni

Ragnhildur er fædd í Reykjavík því það munaði aðeins einu ári að hún hefði mátt fæðast á Sólvangi. „Ég er því ekki ekta Gaflari en ég er sannarlega uppalin í Hafnarfirði. Ég er alltaf stolt af heimabænum og þykir vænt um hann.“ Fyrstu árin bjó hún við Fögrukinn og gekk í Öldutúnsskóla en síðan flutti hún á Vesturbraut og kláraði grunnskólanám í Víðistaðaskóla. „Ég fór svo fyrsta árið í Flensborg en þar var ekkert listnám í boði svo ég fór beint í listnám um leið og ég komst inn. Ég vildi alltaf fara þessa leið í lífinu. Ég var sí-teiknandi og málandi sem stelpa og skrifandi ljóð.“ Spurð hvort þetta hafi verið í genunum segir Ragnhildur svo ekki vera. „Ég veit ekki hvaðan þetta kemur. Ég er sú eina í fjölskyldunni sem hef þetta í mér, fann listagyðjuna snemma og hef sinnt henni síðan.“ Ragnhildur hefur sýnt talsvert af verkum sínum bæði hér heima og erlendis. Hún er með Instagram síðuna ragnhildurjohanns, þar sem hún leyfir fólki að fylgjast með vinnu sinni í story og er dugleg að birta myndir.


Höfða jafnt til Íslendinga og ferðamanna

Samstíga myndlistarparið er sammála um að reksturinn sé óðum að taka við sér aftur eins og hjá mörgum eftir að sljákkað hefur í faraldrinum. Ragnhildur segir reksturinn búinn að ganga mjög vel frá sumarbyrjun og staðsetningin hafi líka sitt að segja. „Við vorum fljót að sýna því áhuga þegar Rauðakrossbúðin flutti sem var áður í plássinu. Það hefur tekið smá tíma að koma okkur á kortið en æ fleiri vita af okkur. Við höfum fyrst og fremst verið heppin. Við virðumst höfða jafnt til Íslendinga og erlendra ferðamanna. Hinir fyrrnefndu þekkja húsin betur. Ein eldri kona sem kom hingað benti á eitt húsanna og sagði: „Þarna fæddist ég!“
Ragnhildur og Jóhann hvetja Hafnfirðinga til að kíkja við og þau taka fram að gæludýr eru hjartanlega velkomin, enda eru þau mikið kattafólk og margar vörur þeirra bera merki þess. Einnig er hægt að skoða vöruúrvali á síðunni www.hjartareykjavikur.com og það er frí heimsending á höfuðborgarsvæðinu og þar með talinn Hafnarfjörð ef keypt er fyrir lágmark 6.900. kr. Minni útgáfan af Hafnarfjarðar-myndinni kostar einmitt 6.900.- og krúsin 3.500.-
Þessi umfjöllun er kynning.