Ágætu lesendur og hlustendur, 

Hafnfirðingur kveður nú sem bæjarmiðill Hafnfirðinga og þar með þjónustuhluverk sitt við bæjarbúa samkvæmt almennri skilgreiningu. Vefsíðan Hafnfirðingur.is og Facebook síðan munu lifa áfram með öllu efni sem þar hefur verið sett inn. Síðasta efnið sem mun koma frá bæjarmiðlinum sjálfum verður viðtal við Hafnfirðing ársins sem lesendur kusu á milli jóla og nýárs. Omikron-afbrigðið hefur dálítil áhrif á upptöku og birtingu viðtalsins, en vonandi verður það í síðasta lagi í lok þessarar viku.

Undanfarin rúm fimm ár hafa verið lærdómsríkari en mig óraði fyrir. Þetta hófst allt með því að nýi Hafnfirðingurinn ég hrósaði þáverandi ritstjóra Fjarðarpóstsins, Ólafi Má Svavarssyni, fyrir jákvæð efnistök og nýju, fallegu bæjarblaði haustið 2016. Í framhaldinu bauð hann mér að skrifa greinar í jólablaðið. Þetta vatt upp á sig og að vori bað hann mig um að leysa sig af sem ritstjóri í eitt ár. Árið 2018 tók ég svo alveg við ritstjórninni og 1. janúar 2019 stofnaði ég fyrirtæki og tók við rekstrinum. Sama ár breytti ég nafninu í Hafnfirðingur, af ærinni ástæðu. 

Rauðu þræðirnir í þessari atburðarás voru ástríða mín, menntun og þekking á fjölmiðlaumhverfinu en einnig einlæg velvild í garð heimabæjarins, íbúa hans, félaga og ég reyndi lengi vel að vekja athygli á smærri fyrirtækjum og einyrkjum, listum, menningu og íþróttum; gefa fólki pláss og raddir á það hátt sem mér var eðlislægastur og mestu líkur á að ég gæti skilað af mér góðu verki. Ég lét reyna á nokkrar fjölmiðlunaraðferðir og fékk gott fólk til liðs með mér því prentmiðlum var spáður hægur en öruggur bani.

Óásættanleg samkeppni og dreifingarmál í ruglinu

Eins og margir vita er ógerlegt að keppa við erlenda samfélagsmiðlarisa um auglýsingakjör og þeir greiða ekki ennþá skatta í íslenskan ríkissjóð þótt landinn moki fjármagni í þá. Þetta þýðir að t.d. bæjarmiðlar verða að reiða sig á að sveitarfélög og eigendur burðugra fyrirtækja í hverju plássi sjái mikilvægum hagsmunum borgið með því að styðja við þá í því hlutverki að endurspegla söguna á hverjum tíma. Ég er þakklát Hafnarfjarðarbæ og þeim fyrirtækjum og aðilum sem studdu mig undanfarin ár. Í sveitarfélagi þar sem rúmlega 600 fyrirtæki starfa var þó oft erfitt að sannfæra eigendur um þennan vinkil. 

Sem betur fer eru ennþá starfandi bæjarmiðlar á Íslandi sem hafa skipað sér mikilvægan sess og verið til áratugum saman og eru jafnvel með áskrifendur og fasta styrktaraðila. Fótunum var þó kippt undan nokkrum þeirra þegar Póstdreifing hætti að dreifa fjölpósti utan höfuðborgarsvæðisins og Akureyri í maí 2019. Þetta hafði að sjálfsögðu áhrif á tekjumöguleika vegna auglýsinga. Á meðan æ dýrara er að prenta er staðan á dreifingarmálum á Íslandi sögulega slæm. Við sjáum þó alveg hvert stefnir, enda skilst mér að verð á pappír muni hækka verulega á næstu árum ofan á allt. 

Vefsíður eða bloggsíður?

Þá eru það vefmiðlarnir. Formaður blaðamannafélagsins, Sigríður Dögg Auðunsdóttir, sagði í viðtali fyrr í vetur að vefmiðill sem ekki hefur ritstjórn sé í raun blogg. Samkvæmt þeirri skilgreiningu flokkast í raun langflestir bæjarmiðlar þá sem blogg, því þar er ein manneskja sem gerir allt. Sigríður sagðist einnig vona að þeir sem reka slíka miðla og ritstýra þeim geri það með gildi blaðamennsk­unn­ar og siðaregl­ur blaðamanna­fé­lags­ins að leiðarljósi. Það er allur gangur á því, held ég. Áhugasvið ritstjóra eru líka misjöfn og ekki hægt að fara fram á að eins manns bæjarmiðill sé í senn Kveikur, Landinn, Segðu mér, fréttastofa, viðburðaljósmyndari, pósthólf fyrir aðsent efni og skapandi auglýsingadeild. Ritstjórar bæjarmiðla hafa flestir ekki haft annan möguleika en að taka launalaust sumarfrí árum saman, eru löngu hættir að geta reitt sig á starfið sem lífsviðurværi og eru því samhliða í öðrum störfum og/eða verkefnum. 

Árið 2013 störfuðu yfir 2.200 manns í fjölmiðlum á Íslandi en hefur fækkað niður í rúmlega 800. Á þremur síðustu árum hefur starfsfólki í fjölmiðlum fækkað um nálægt 50%. Um að ræða atgervisflótta og reynslumikið fólk sem hefur þraukað lengur en það ætlaði sér. Og mörg hafa misst heilsuna, tímabundið eða verulega. 

Víða í samfélagi okkar vinnur hugsjónafólk í illa launuðum störfum sem við tökum sem sjálfsögðum hlut, undir miklu álagi og fá jafnvel harða gagnrýni, hótanir og jafnvel kærur. Þú lesandi/hlustandi góður ert jafnvel eitt þeirra. Gjarnan er um að ræða fólk sem hefur frá unga aldri verið í einhvers konar sjálfboðavinnu, skátum og alið upp við að láta gott af sér leiða; foreldrar, ömmur eða afar mögulega forkólfar í líknarfélagi, björgunarsveit, systrafélagi eða starfandi í einhverjum af þeim fjölmörgu samtökum sem sprottið hafa upp í fjármálasvelti eða skeytingarleysi stjórnvalda hverju sinni.  

Fjöldi fólks í mörgum störfum að íhuga stöðu sína

Ég held að ansi margir séu komnir með nóg og að íhuga stöðu sína. Það kemur að þeim tímapunkti að fólk nær aukinni sjálfsþekkingu og fer að hlúa meira að eigin heilsu og sínum nánustu sem jafnvel hafa verið vanræktir fyrir samtakamátt samfélagins. Eins og nýjasti viðmælandi minn í hlaðvarpinu Plássinu, Ingvar Jónsson, sagði nokkurn veginn svona: Ef þú hjálpar, gefur og ert til staðar og það tekur ekki frá þér orku, þá ertu að gera það rétt. En ef þú ert til staðar og tekur að sér verk fyrir aðra í góðvild en hefur í raun ekki tíma, orku eða langar ekki til þess. Þá er það meðvirkni. 

Ég held að einnig sé komið að því að fólk í auknum mæli láti ekki lengur koma illa fram við sig, sama um hvern ræðir hverju sinni. Við erum að fara að setja fleiri og skýrari mörk – og vonandi virða meira mörk annarra. Við munum ekki lengur láta króníska og ábyrgðarlausa líðan eða tilveru annarra bitna á okkur og margir munu stíga út úr óheilbrigðum samskiptum eða samböndum. Sama hvort um er að ástar-, viðskipta-, vina- eða önnur sambönd. Við höfum ekki orku í meira kjaftæði og viljum verja henni í annað uppbyggilegra. Af nægu er að taka. Það er líka auðveldara í dag að tjá sig upphátt um óheilbrigð samskipti, ofbeldi og annað. Það eru fleiri tilbúnir að hlusta og það er svo margt gott fólk reiðubúið að hjálpa við að stíga fyrstu skrefin. 

Samkennd, samstaða, áreiðanleiki og það kunna að lesa í fólk og aðstæður eru, auk þekkingar, þegar orðnir meðal eftirsóknarverðustu eiginleika fólks sem er ráðið í vinsæl störf. Og einnig eftirsóknarverðir eiginleikar í makavali og vináttu. Þegar allt kemur til alls verður okkar minnst fyrir hvaða áhrif við höfðum á samferðafólk okkar og það er eins gott að kíkja oftar í eigin barm, hvort sem það er augliti til auglitils eða með lyklaborðið sem „vopn“. 

Hafnfirðingur breytir um hlutverk

Hlutverk Hafnfirðings verður áfram jákvætt, uppbyggjandi, myndrænt og hvetjandi í mínum höndum og í mínum anda. Hlaðvarpið Plássið verður á sínum stað og ég býð upp á fyrirtækjakynningar en mun ekki birta aðsendar greinar né fréttatilkynningar. Hér verður ýmislegt annað í boði sem ég mun verja orku minni og tíma í og þau sem áfram kjósa að fylgjast með munu taka eftir því. Ég hlakka til og mun samhliða öðrum störfum gera mitt besta til að hlúa að veftímaritinu Hafnfirðingi.

Hjartans þakkir fyrir samfylgdina, samskiptin og samvinnuna á undanförnum árum. Vegni ykkur öllum sem allra best í því sem þið fáist við. Ég fylgist með og hef kannski samband.

Gleðilegt nýtt ár!
Olga Björt Þórðardóttir