Meikar ekki sens eru ferskir og orkumiklir sketsaþættir eftir ungu hafnfirsku höfundana Arnór Björnsson og Óla Gunnar Gunnarsson. Öll þáttaröðin er komin í Sjónvarp Símans Premium og var að mestu leyti tekin upp í Hafnarfirði í fyrrasumar. Þótt Arnór og Óli Gunnar hafi þarna stigið sín fyrstu skref í sjónvarpsþáttagerð, þá eiga þeir langa reynslu og samstarf að baki sem leikarar og höfundar verka sem hafa verið sett á fjalirnar og vakið mikla athygli. Við ræddum við Arnór.

Spurður um hvað þeir félagar lærðu mest af þessu ferli og hafa stokkið út í þessa laug segist Arnór eiginlega ekki geta valið neitt, heldur hafi þetta verið einn stór lærdómur. „Þetta var í fyrsta skiptið sem ég leikstýrði einhverju, skrifaði sjónvarpsseríu, lék fyrir framan myndavél og klippti og framleiddi sjónvarpsseríu. Þannig það sem stendur upp úr er að hafa verið algjör busi í byrjun en kunna ágætlega á þetta núna.“


Allir geggjað næs
Eins og glöggir áhorfendur taka væntanlega eftir voru þættirnir teknir upp víða í Hafnarfirði. „Já sko, Hafnarfjörður er ekki bara besti bær í heimi, heldur er hann besti tökustaður í heimi og í raun bara svona lítill alheimur í sjálfu sér. Við tókum upp í Hellisgerði, hjá Helgafelli, Austurgötu, Kvistabergi (heima hjá mér), Háahvammi (heima hjá Óla), slökkviliðsstöðinni, Pallet kaffihúsi, Íshúsi Hafnarfjarðar, Von veitingastaðnum, bílakjallaranum í Firðinum, undirgöngunum við Lækjarskóla, kirkjugarðinum, Víkingahótelinu og Fjörukránni, Fríkirkjunni, Hafnarfjarðarkirkju, Gaflaraleikhúsinu, Gólfklúbbnum Oddi, Víðistaðatúni og ég er örugglega að gleyma einhverju. En við sem sagt geymdum búninga og byrjuðum alla daga í Gaflaraleikhúsinu og reyndum að hafa þá alla tökustaði í Hafnarfirði upp á hentugleika. Svo kom bara í ljós að Hafnarfjörður dugði nánast til að taka upp allar senurnar. Og ekki skemmdi fyrir að allir voru geggjað næs. Við löbbuðum inn í slökkvistöðina degi fyrri tökur og spurðum bara „Megum við taka upp?“ Og þar voru allir geggjað peppaðir að fá okkur. Hollywood er klárlega að missa af besta tökustaðnum, en það er allt í góðu. Við tökum þá bara upp hér í staðinn!, segir Arnór afar þakklátur.

Vilja gera seríu tvö
Með aðalhlutverk í þáttunum, auk Arnórs og Óla Gunnars, fara Ásgrímur Gunnarsson, Ásthildur Úa Sigurðardóttir og Kolbrúna María Másdóttir. Arnór segir viðtökur hafa verið glimrandi góðar. „Maður fær skilaboð hægri vinstri frá fólki af öllum stærðum og gerðum að óska manni til hamingju. Það er æðislegt að fá svona stuðning þegar maður gerir eitthvað verkefni. Ég er alveg rosalega þakklátur. Takk allir fyrir peppið og #Uppmeðhendurfyrirseríu2!“ Spurður um uppáhalds skets, segir Arnór það vera einfaldlega erfiðustu spurningu okkar samtíma. „Margir sketsar eiga sérstakan stað í hjarta mínu en ég held að ég þyrfti að segja Byggingakranasketsinn, hann er að mínu mati fullkomnasti brandari sem við höfum skrifað. Stuttur, skrýtinn og býr til heim með skrýtið geim á nokkrum sekúndum með fullnægjandi punch-i. Í öðru sæti væri sennilega Ávöxtur #2, en það er vegna þess að papríkan í þeim skets var ráðin á tökustaðnum og ég hefði ekki geta fundið betri leikara hefði ég leitað í 15 ár.“

Hafa gaman og setja metnað í draumana
Hvað viljið þið segja við Hafnfirðinga og ungt fólk sem langar að láta drauma rætast eins og þið hafið svo oft gert? Hver er lykillinn að farsælu samstarfi? „Vá. Ég held sko að við höfum ekki enn fundið lykilinn. Kannski finnur hann enginn nokkurn tímann. En eitt sem mun undir öllum kringumstæðum koma sér vel er þetta: Hafðu gaman að því sem þú gerir og settu metnað í það. Og hafðu gaman af því að setja metnað í það. Annars virkar þetta ekki. Þannig, finndu eitthvað sem þér finnst gaman og settu metnað í það. Ef þér finnst það ekki gaman þá muntu bara sturlast. Takk allir fyrir peppið á þáttunum, munið að lesa Hafnfirðinginn þar til dagar ykkar eru taldir!,“ segir Arnór að lokum og Hafnfirðingur óskar þeim félögum að sjálfsögðu allra heilla og heldur áfram að fylgjast með þeim.
Myndir af Arnóri og Óla Gunnari/OBÞ