Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur samþykkt sjö tillögur að aðgerðum til að hvetja húsbyggjendur að setja umhverfið í forgang í samræmi við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, auknar kröfur um minni losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið og aukna umhverfisvitund almennings. Á fundi bæjarstjórnar 29. maí sl. var meðal annars samþykkt að veita 20-30% afslátt af lóðarverði til að hvetja framkvæmdaraðila til þess fá Svansvottun, BREEAM vottun eða sambærilegt á nýbyggingar. Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu bæjarins. 

Tillögurnar eru afrakstur vinnufunda um skipulag og framkvæmdir frá sjónarmiði um sjálfbærni með umhverfis- og framkvæmdaráði og skipulags- og byggingaráði ásamt embættismönnum Hafnarfjarðarbæjar sem sjálfbærniverkfræðingur hjá verkfræðistofunni Mannvit stýrði. Tilgangur aðgerðanna er meðal annars að framfylgja markmiðum mannvirkjalaga en einnig var horft til umhverfis- og auðlindastefnu Hafnarfjarðarbæjar með það fyrir augum að stuðla að aukinni sjálfbærni í skipulags- og byggingarmálum í sveitarfélaginu og gera Hafnarfjörð að aðlaðandi stað til að byggja vistvænt.

Aðgerðirnar sem samþykktar voru samhljóða eru eftirfarandi. Vísað er í skýringar í minnisblaði Mannvits dags. 20.5. 2019 „Vistvæn byggð: Tillögur að aðgerðum.“

  1. Bæjarstjórn samþykkir að sett verði í skipulagsskilmála skilyrði um djúpgáma á öllum uppbyggingarsvæðum. Auk þess verði gert verði ráð fyrir þeim við endurskoðun á skipulagsskilmálum í eldri hverfum.
  2. Bæjarstjórn samþykkir að sett verði í skipulags- og úthlutunarskilmála tilvísun í grein 15.2.4 í byggingareglugerð um endurvinnslu úrgangs á framkvæmdastað og tekið upp sektarkerfi í samræmi við grein 2.9.2. í byggingareglugerð um að knýja fram úrbætur.
  3. Bæjarstjórn samþykkir að minnsta kosti 20% byggingarefna í nýframkvæmdum skuli hafa umhverfisvottun.
  4. Bæjarstjórn samþykkir að Hafnarfjarðarbær sýni fordæmi og móti sér stefnu um vottun allra nýbygginga á vegum sveitarfélagsins.
  5. Bæjarstjórn samþykkir að innleiddir verði hvatar til að hvetja framkvæmdaraðila til þess fá Svansvottun, BREEAM vottun eða sambærilegt á nýbyggingar, meðal annars í formi afsláttar af lóðaverði. Bæjarstjórn samþykkir að afsláttur af lóðarverði vegna Svansvottaðs húss verði 20%. Einnig er lagt til að byggingar með Breeam einkunn “Very good” 55% fái 20% afslátt af lóðarverði og við Breeam einkunn “Excellent” 70% verði afsláttur af lóðarverði 30%.
  6. Bæjarstjórn samþykkir að gjaldskrá Hafnarfjarðarkaupstaðar verði uppfærð samkvæmt samþykkt 5. liðar.
  7. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að Hafnarfjarðarkaupstaður gerist aðili að Grænni byggð og greiði aðildargjöld samkvæmt 2. flokki.

Bæjarstjórn fól umhverfis- og skipulagsþjónustu framkvæmd á tillögum 1-5 og stjórnsýslusviði framkvæmd á tillögum 6-7.

Nánari upplýsingar:

 

Mynd: Olga Björt