Sorgarmiðstöð, regnhlífarsamtök grasrótarfélaga á sviði sorgarúrvinnslu, opnaði aðstöðu fyrr í haust í húsnæði St. Jósefsspítala við Suðurgötu. Hafnfirðingur var viðstaddur opnunina og kynningu á starfsemininni, en troðfullt var út úr dyrum. Ína Lóa Sigurðardóttir, einn af stofnendum og stjórnarmaður í Sorgarmiðstöð, ræddi við okkur, en hún missti mann sinn frá tveimur ungum börnum. 

Frá opnun Sorgarmiðstöðvar í haust. Stofnendur og stjórnarfólk. Mynd/OBÞ

Aðdragandinn að stofnun Sorgarmiðstöðvar var sá að Ný dögun bauð til vinnufundar þar sem rædd var spurningin „Hvað getum við gert betur fyrir syrgjenda á Íslandi?“ Á þeim vinnufundi komu saman sorgarfélögin fjögur; Ný Dögun, Birta, Ljónshjarta og Gleymmérei, ásamt prestum, lögreglumönnum, heilbrigðistarfsfólki o.fl. „Hópurinn hittist í kjölfarið í nokkur skipti og var einróma niðurstaða að það þyrfti að stofna Sorgarmistöð þar sem hægt væri að nálgast allar upplýsingar á einum stað og fá aðstoð. Það yrði til staður sem grípur fólk strax og leiðir það áfram í ferlinu,“ segir Ína. Eins og gefur að skilja einfaldar svona miðstöð aðkomu  allra fyrrgreindra aðila sem hafa með þessi málefni að gera í sínum störfum. 

Ína ásamt Högna Egilssyni í Hjaltalín, sem tók lagið við opnunina. Mynd/OBÞ

Gott að komast í kynni við aðra syrgjendur

Í sorgarferli tekur Ína fram að einnig sé mjög gott fyrir fólk að komast í kynni við aðra syrgjendur sem skilji upplifunina. „Til dæmis pælingar eins og hvenær á að fjarlægja tannbursta þess látna úr glasinu, taka niður giftingarhringinn og hvað á að gera við fötin? Eins vel og fjölskylda og vinir vilja gera, þá er það allt annað samtal um sorgina en þegar þú talar við einhvern með sömu reynslu.“ Þá verði hópastarfið hjá Sorgarmiðstöð, fyrir alla hópa, mjög öflugt í framhaldi af fræðsluerindum. Sorgarmiðstöð muni standa að fræðslu í grunnskólum, er varðar t.d. hvað hægt sé að gera betur í skólaumhverfinu þegar kemur að sorg barna.Ína vonast til að syrgjendur nýti sér Sorgarmiðstöðina og tekur fram að ætlunin sé að einfalda þjónustuna, gera hana betri og skilvirkari og ná til sem flestra sem upplifa sorg í gegnum ástvinamissi.

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri og Eva Michelsen verkefnastjóri hjá Lígsgæðasetri St. Jó. Mynd/OBÞ

„Við viljum að fólk sæki sér aðstoð. Hættum að fara allt á hnefanum og verum opnari fyrir því að ræða um dauðann. Við ættum öll að geta átt samtal við okkar nánustu um óskir okkar, helst löngu áður en við deyjum – og jafnvel skrá þær niður. Fólk veit oft ekkert hvernig á að hegða sér í kringum syrgjendur og forðast jafnvel samskipti vegna hræðslu við að segja eitthvað rangt, særandi eða heimskulegt. Best að segja bara beint út að það viti ekki hvað það á að segja en vilji sýna samúð og hjálpsemi. Sorgarferli tekur tíma og við verðum að leyfa því að gera það. Syrgjendur ættu að fá lögfest orlof til að ná áttum. Ég missti barn á meðgöngu og fékk fæðingarorlof. 10 árum seinna missti ég manninn minn frá 2 ungum börnum og átti ekki rétt á neinu orlofi. Þetta finnst mér verulega bogið.“ 

Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis og Alda Möller landlæknir. Mynd/OBÞ