Hæstu frístundastyrkir á landinu eru greiddir í Hafnarfirði, 54.000 krónur á hvert barn á ári, samkvæmt samantekt verðlagseftirlits ASÍ. RÚV greinir frá. Samantektin nær til 16 stærstu sveitarfélaga landsins.

Frístundastyrkir eru greiðslur frá sveitarfélögum sem nýttar eru til að greiða niður tómstundastarf, svo sem íþróttaæfingar eða tónlistarnám. Þessu til viðbótar má nefna að Hafnarfjörður er eina sveitarfélagið á Íslandi sem greiðir frístundarstyrki til eldri borgara, kr. 48.000- á ári.

Samkvæmt nýlegum tölum, sem lagðar voru fyrir á síðasta fundi íþrótta- og tómstundanefndar kemur í ljós að meirihluti ungmenna 6-18 ára í Hafnarfirði stundar skipulagðar íþróttir eða tómstundir og nýtir frístundastyrk hjá bænum eða um 69%. Greina má aukna þátttöku í nánast öllum aldursflokkum miðað við fyrri ár.

Í frétt á vefsíðu Hafnarfjarðarbæjar segir að reglur um notkun frístundastyrks hafa verið rýmkaðar og aldursmörk hækkuð þannig að sem dæmi má nefna að 18 ára gamall bæjarbúi getur nýtt sér styrkinn fyrir líkamsræktarkort. Í september 2019 hækkaði styrkurinn úr 4.000.- kr á mánuði í 4.500.- kr.

Mynd/OBÞ