Veitingastaðurinn Rif opnaði fyrr í sumar á 2. hæð í verslunarmiðstöðinni Firði. Matreiðslumeistarinn Ævar Olsen stýrir þar vöskum hópi starfsfólks sem hefur það að aðalmarkmiði að gestum líði sem best og njóti matarins og umhverfisins. Ævar, sem hefur verið í veitingabransanum í 42 ár, er hæstánægður með viðtökurnar.

Þegar Fjarðarpósturinn mætti á þennan glæsilega og hlýlega veitingastað var Ævar að ganga á milli borða og spjalla við gesti á milli þess sem hann athugaði hvort allt væri á réttu róli í eldhúsinu. „Ég er gestgjafi hér og þetta eru gestirnir mínir,“ sagði hann brosandi þegar við náðum tali af honum. „Mér fannst komið gott af veitingarekstri en svo kitlaði mig hugmyndin að opnun þessa staðar og Guðmundur Bjarni Harðarson, framkvæmdastjóri hér í Firði, var búinn að tala við mig í þrjú ár um að láta verða af þessu. Mér fannst ég hafa kannski eitthvað meira að sanna og ég er svo ánægður með hvað Hafnfirðingar hafa tekið utanbæjarmanninum mér vel. Ég hef búið í bænum síðan 2011.“

Afar hlý aðkoma.

Falleg hönnun og litasamsetning.

Hægt er að fylgjast með íþróttaviðburðum á skjám og tilvalið að fá sér hressingu á meðan.

Íþróttaviðburðir á skjám

Aðspurður segir Ævar að rekstur Rifs hafi farið fram úr björtustu vonum og þá líklega vegna þess að matseðilinn höfðar til margra. „Besta sem fólk segir við okkur er að maturinn líti ekki bara vel út, heldur smakkist svakalega vel og sé á góðu verði. “ 5-10 manna hópar séu algengastir meðal gesta og þá ýmist um að ræða fjölskyldur, vini eða vinnufélaga. „Ömmu- og afahóparnir koma í vöfflukaffi á milli klukkan 14 og 17 og vilja gjarnan sitja við gluggann og horfa á einstakt útsýnið. Svo byrjar kvöldmatartraffíkin eftir það og er stanslaus fram að lokun til klukkan 21. Við opnum hálf 12 á virkum dögum og 12 um helgar. Hér eru líka skjáir um allt og vinsælt að setjast niður með öl og horfa á ýmsa íþróttaviðburði,“ segir Ævar. Hann tekur fram að hann sé sérstaklega heppinn með starfsfólk. „Það er oft erfitt að fá starfsfólk í eldhús en ég fékk gott fólk og er með faglærðan þjón í salnum og það skiptir miklu máli. Við þurfum samt að bæta við fólki og gefum okkur tíma í það og veljum rétt.“ 

Þessar skemmtilegu vinkonur, Rósa Guttormsdóttir, Tinna Mjöll Karlsdóttir, Bryndís Fanney Guðmundsdóttir og Stefanía Kristjánsdóttir, voru ýmist að koma í fyrsta sinn á Rif eða höfðu komið áður. Þegar blaðamaður truflaði þær örstutt sögðust þær vera virkilega ánægðar með matinn og þjónustuna.

 

Myndir/OBÞ
Þessi umfjöllun er kynning.