Stjórn Strætó bs. og Hafnarfjarðarbær samþykktu í fyrra breytingar á leiðanetinu innan sveitarfélagsins sem munu taka gildi 15. júní. Um er að ræða fyrsta áfanga í hinu stóra Borgarlínuverkefni og spilar leið 1 þar stóran þátt, sem hefst og endar á öllunum. Hafnfirðingur ræddi við Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóra Strætó bs. 

„Þetta er fyrsta Borgarlínubreytingin og við erum mjög ánægð með hana. Sumar leiðir í Hafnarfirði hafa verið óreglulegar og mismunandi númer á vögnum fyrir og eftir hádegi. Við erum með þessu að rétta úr leiðum í takti við Borgarlínuverkefnið, gera þær beinni og stytta ferðatímann. Þetta eru hænuskref í átt að hágæðasamgöngum,“ segir Jóhannes. Stærsta leiðin, númer 1, komi úr Hafnarfirði sem sýni að Hafnfirðingar eru dyggir notendur strætó og Jóhannes segir það mjög ánægjulegt. „Því er vel við hæfi að byrja í Hafnarfirði.“ 

Nýja leiðakerfið. Nánar er hægt að sjá það hér: https://platform.remix.com/map/f7b20a1/line/7922a06?dir=0

Þyngri áhersla á þátttökukerfi 

Aðal breytingin verði úr þekjandi kerfi í þátttökukerfi. Með þekjandi kerfinu hafi vagnar lagt lykkju á leiðir sínar til þess að ná viðkomu í sem flestum hverfum. Þannig hafi þjónustan dreifst yfir stærra landsvæði, ferðatími aukist, tíðni minnkað og farþegar verið færri. „Þyngri áhersla verður lögð á þátttökukerfi. Í slíku neti eru leiðirnar skipulagðar þar sem byggð er þéttust. Leiðirnar eru beinni, með örari tíðni, styttri ferðatíma og fleiri farþega. Á móti gætu farþegar þurft að fara örlítið lengri vegalengdir á næstu biðstöð. Markmiðið með þessu er að verja fjármunum betur í að auka tíðni ferða, meiri forgangsakstur og slíkt,“ segir Jóhannes, en hugmyndafræðin kemur frá Jarrett Walker sem kom hingað til lands fyrir nokkrum árum með fyrirlestra. „Þetta er stórt verkefni og búið að taka á annað ár með samráði við fjölda þátttakenda og miklu skipulagi.“ 

Samkvæmt nýja leiðakerfinu mun þessi leið 19 leysa þessa leið, nr. 44, af. Mynd/OBÞ

Nýtt app í smíðum og rauntímaskjáir
Með breytingunni verður ekið skv. 15 mínútna tíðni á annatímum og 30 mínútna tíðni utan annatíma. Tengingar við leiðir 1, 21 og 55 verða í Firði. Í stað þess að aka milli Fjarðar og Mjóddar verður ekið á milli Háholts og Mjóddar.Það er eðlilegt að það muni taka tíma að venjast þessu. Við erum líka með í gangi í innleiðingu á nýju samgöngukerfi og að smíða nýtt app og einnig verða rauntímaskjáir í stafrænum biðskýlunum. Það er hluti af þessari framtíðarsýn. Þá er hægt að sjá hversu langt er í næsta vagn eins og margir þekkja erlendis frá. Það kemur í stað þess að hafa óskýrar tímatöflur. Reykjavíkurborg er með útboð á svona skýlum núna og einhver sveitarfélög hafa sýnt þeim áhuga og mögulega þá við sama aðila eða hvernig sem það fer. Við getum líka unnið með þeim í því að finna hentugan aðila í það ef þau vilja,“ segir Jóhannes að endingu.

Myndir af Jóhannesi aðsendar.

Þessi umfjöllun er kynning.