Val á íþróttakonu, íþróttakarli og íþróttaliði Hafnarfjarðar fór fram rafrænt á miðlum Hafnarfjarðarbæjar í dag. Afrekslið Hafnarfjarðar 2021 er meistaraflokkur kvenna í körfuknattleik hjá Knattspyrnufélaginu Haukum. Guðrún Brá Björgvinsdóttir kylfingur frá Golfklúbbnum Keili er íþróttakona Hafnarfjarðar og Róbert Ísak Jónsson sundmaður úr Íþróttafélaginu Firði er íþróttakarl Hafnarfjarðar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ og meðfylgjandi myndir líka.

Árlega stendur Hafnarfjarðarbær fyrir afhendingu viðurkenninga til íþróttafólks sem keppir með hafnfirskum liðum, Íslandsmeistara, hópa bikarmeistara, Norðurlandameistara, heimsmeistara og sérstakra afreka, ásamt vali á íþróttakonu, íþróttakarli og íþróttaliði Hafnarfjarðar. Rafræn hátíð fór fram á miðlum Hafnarfjarðarbæjar í dag. Á árinu 2021 hafa um 300 einstaklingar unnið Íslandsmeistaratitla og/eða bikarmeistaratitla með hafnfirsku liði og er þeim sérstaklega óskað til hamingju með árangurinn. Á hátíðinni var 8 milljónum úthlutað úr sjóði sem Rio Tinto á Íslandi, ÍBH og Hafnarfjarðarbær standa að og ætlað er að efla íþróttastarf fyrir yngri en 18 ára.


Einstök frammistaða í íslenskri íþróttasögu hjá afreksliði Hafnarfjarðar

Meistaraflokkur kvenna í körfuknattleik hjá Haukum náði að verða í öðru sæti á Íslandsmótinu, varð bikarmeistari og meistari meistaranna í haust. Einnig vann liðið fyrsta Evrópuleik sem íslenskt kvennalið hefur unnið núna í haust þegar portúgalska liðið Union Sportiva var lagt í forkeppni EuroCup. Haukar höfðu betur í samanlögðum úrslitum tveggja leikja þessa félaga og fóru í riðlakeppni Evrópukeppninnar. Með þessari frammistöðu eru Haukar að fara fyrir íslenskum kvennaliðum í körfuknattleik og er atburðurinn einstakur í íslenskri íþróttasögu. 

Róbert Ísak Jónsson er íþróttakarl Hafnarfjarðar 2021

Róbert Ísak. Mynd frá Hafnarfjarðarbæ.

Róbert Ísak sundmaður Fjarðar er íþróttakarl Hafnarfjarðar og Íþróttasambands fatlaðra 2021. Hann er fjórfaldur Íslandsmeistari í 25m laug í flokki S14 og þrefaldur Íslandsmeistari í 50m laug. Einnig setti hann fjölda Íslandsmeta á árinu. Hann vann silfurverðlaun í 100m flugsundi og bronsverðlaun í 200m fjórsundi á EM á Madeira. Á Paralympics 2020 í Tókýó, sem fór fram 2021 náði hann 6. sæti í 100m flugsundi og 200m fjórsundi.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir er íþróttakona Hafnarfjarðar 2021

Guðrún Brá. Mynd/Hafnarfjarðarbær.

Guðrún Brá er ein af fremstu kylfingum landsins og hefur verið það í mörg ár. Hún er kvenkylfingur Golfsambands Íslands og Keilis 2021. Á árinu varð hún Íslandsmeistari kvenna í holukeppni og sigraði á móti B59 á mótaröð þeirra bestu. Guðrún Brá er atvinnukylfingur í golfi og leikur á Evrópumótaröð kvenna þar sem hún var með fullan þátttökurétt á árinu. Hún tók þátt í sextán mótum á árinu og vann sér inn þátttökurétt á lokamóti á Evrópumótaröðinni á Spáni í nóvember sl. Besti árangur hennar í ár var 12. sæti á Aramaco mótinu á Englandi í júlí og 8. sæti á ATS í Saudi Arabíu í nóvember. Guðrún Brá endaði í 75. sæti á styrkleikalista LET Evrópumótaraðarinnar og er í sæti 649 á heimslista atvinnukvenna í golfi. Guðrún Brá heldur fullum rétti á árinu 2022 á LET mótaröðinni sem hefst í febrúar. Hún er fjórða íslenska konan sem náð hefur keppnisrétt á mótaröðinni.