Guðbjörg Reynisdóttir 19 ára í Bogfimifélaginu Hróa Hetti í Hafnarfirði var á dögunum valin íþróttakona ársins í bogfimi.

Guðbjörg byrjaði í bogfimi fyrir um 4 árum af því að henni fannst gaman að skjóta boga eða eins og hún myndi segja það sjálf „Hverjum finnst ekki gaman að skjóta af boga…duh“. Hún keppir í berboga flokki sem er bogi án miðs eða aukabúnaðar.

Guðbjörg endaði í 4 sæti á EM U21 í víðavangsbogfimi í Slóveníu í október eftir að tapa brons leiknum á móti breskum keppanda. Ítalía og Svíþjóð tóku gull og silfur á mótinu. Guðbjörg skoraði hæsta skor mótsins í riðlakeppninni af öllum konum í opnum flokki og U21, þrátt fyrir að slasa sig og þurfa sökum þess aðstoð við að sækja örvarnar. Þetta var í fyrsta sinn sem Guðbjörg keppti í víðavangsbogfimi þar sem sú íþróttagrein er nýleg á Íslandi.

Guðbjörg tók 2 silfur á norðurlandamótinu í ár en hún tók titilinn í fyrra og hefur verið að keppa þar við Svíana um topp sætið. Svíþjóð er ein af tvemur sterkustu þjóðum í berboga ásamt Ítalíu.

Guðbjörg sló 4 Íslandsmet á árinu tvisvar í opnum flokki og tvisvar í U21 flokki. Ásamt því að vera efsta konan í öllum innlendum mótum á árinu sem hún keppti í. Guðbjörg vann Íslandsmeistaratitlilinn utandyra og innandyra í opnum flokki berboga kvenna á árinu. Ásamt því að taka báða titlana í U21 flokki. Hún gerði hið sama í fyrra.

Guðbjörg mun keppa á HM U21 í víðavangsbogfimi og norðurlandamótinu á næsta ári þar líklegt er að hún muni standa sig vel.

Mynd og texti aðsend.